Knattspyrnufélagið Newcastle United var metið á yfir einn milljarð punda þegar þjóðarsjóður Sádi-Arabíu, PIF, stækkaði hlut sinn í félaginu á dögunum og keypti út hjónin Amanda Staveley og Mehrdad Ghodoussi, samkvæmt heimildarmönnum Bloomberg.

Enski auðkýfingurinn Mike Ashley seldi knattspyrnufélagið til hóps fjárfesta, sem PIF leiddi, árið 2021 fyrir 305 milljónir punda. PIF eignaðist þá 80% hlut í Newcastle United. Fasteignamógúlarnir David og Simon Reuben ásamt Amanda Staveley og eiginmanni hennar, Mehrdad Ghoudoussi, keyptu eftirstandandi 20% hlut í félaginu.

PIF hefur frá yfirtökunni sett tæplega 260 milljónir punda til viðbótar inn í reksturinn að sögn heimildarmanna Bloomberg.

Eignarhlutur Staveley, sem spilaði lykilhlutverk í yfirtökunni á Newcastle, og Ghodoussi þynntist úr 10% í um 6% við hlutafjáraukninguna. Talið er að hjónin fái um 60 milljónir punda, eða yfir 10 milljarða króna, fyrir söluna til PIF.

Staveley er sögð hafa safnað 500 milljónum punda í áskriftarloforð fyrir nýjan sjóð sem hyggst fjárfesta í öðru knattspyrnufélagið. Sjóðurinn íhugar m.a. að kaupa hlut í Tottenham Hotspur.

Amanda Staveley og eiginmaður hennar Mehrdad Ghodoussi seld hlut sinn í Newcastle United á dögunum. Talið er að þau hafi fengið um 10 milljarða króna fyrir söluna.
© epa (epa)

Newcastle United hefur gengið mun betur á fótboltavellinum eftir eigendaskiptin. Félagið endaði í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar á tímabilinu 2022/23 og tryggði sér þátttökurétt í Meistaradeildinni á síðasta tímabili. Liðinu gekk aðeins verr á síðasta tímabili og endaði í sjöunda sæti.

Með eins milljarðs punda verðmatinu er Newcastle United nú álíka verðmætt og ítalska knattspyrnufélagið AC Milan sem hefur unnið efstu deildina í Ítalíu nítján sinnum og Meistaradeild Evrópu og forvera Evrópukeppninnar sjö sinnum, næst oftast allra liða.