Hlutabréfaverð líftæknilyfjafélagsins Oculis hefur byrjað árið af krafti er gengi félagsins hefur hækkað um 38% á fyrstu 8 viðskiptadögum ársins.
Oculis var skráð í Kauphöllina í apríl í fyrra en skömmu fyrir skráningu sótti félagið 59 milljónir bandaríkjadala í hlutafjárútboði. Gengið í útboðinu var 11,75 dalir sem á þáverandi gengi samsvaraði um 1.647 krónum á hlut.
Þeir fjárfestar sem tóku þátt í útboðinu hafa þannig séð um 100% hækkun á virði hlutanna frá skráningu sé tekið mið af dagslokagengi dagsins í dag.
Hlutabréfaverð Oculis hækkaði um 14% í 2,2 milljarða króna viðskiptum í dag og var dagslokagengið 3.300 krónur.
Fjárfestar virðast vera að binda vonir við jákvæðar niðurstöður frá Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA) við umsókn um markaðsleyfi fyrir OCS-1.
Oculis mun sækja um leyfið á fyrsta ársfjórðungi ársins.
Um er að ræða augndropa til meðferðar við bólgu og verkjum eftir augnaðgerðir en droparnir eru sagðir byltingarkenndir og er Oculis með einkaleyfi á framleiðslu þeirra til ársins 2040.
Í byrjun janúar greindi félagið einnig frá jákvæðum niðurstöðum (e. topline results) fyrir OCS-05 í fasa 2 ACUITY-rannsókninni, sem uppfyllti aðalviðmið um öryggi og afleidd lykilviðmið um virkni.
Hlutabréfaverð Amaroq hækkaði einnig í viðskiptum dagsins og fór gengið upp um 2,5% í 86 milljóna viðskiptum. Dagslokagengi Amaroq var 205 krónur og hefur aldrei verið hærra.
Hlutabréf í Eimskip hækkuðu einnig er gengið fór upp um 2% í 121 milljóna viðskiptum. Dagslokagengi Eimskips var 426 krónur.
Olíuverð hefur áhrif á flugfélögin
Hlutabréf í Icelandair leiddu lækkanir á aðalmarkaði í dag er gengi félagsins fór niður um rúm 3% í 151 milljóna viðskiptum.
Gengi Play lækkaði einnig um 2,5% í örviðskiptum en ætla megi að heimsmarkaðsverð á hráolíu sé að hafa áhrif á gengið.
Heimsmarkaðsverð á Brent hráolíu hefur hækkað um tæp 6% síðustu daga og farið úr 76 dölum í 80,5 dali á tunnuna.
Úrvalsvísitalan OMXI15 hækkaði um 0,73% og var heildarvelta á markaði 5,9 milljarðar.