Kínverska fatanetverslunin Shein er í viðræðum um að safna allt að þremur milljörðum dala í nýrri fjármögnunarlotu félagsins. Þetta kemur fram í grein hjá Financial Times.

Fjármögnunin verðmetur Shein á 64 milljarða dala sem er mikil virðislækkun frá síðustu fjármögnunarlotu sem haldin var í apríl í fyrra þegar félagið var metið á 100 milljarða dala.

Shein tryggði sér 1-2 milljarða dala fjármögnun í apríl á síðasta ári. Varð fyrirtækið þá 100 milljarða dala virði og um leið eitt af verðmætustu fyrirtækjum heims. Til samanburðar var Shein 15 milljarða dala virði árið 2020 og hafði virði félagsins því rúmlega sjöfaldast á tveimur árum.

Shein gerir ráð fyrir að halda hlutafjárútboð vestanhafs strax á þessu ári, en félagið velti 30 milljörðum dala í fyrra.