Á mánudaginn fór fram munnlegur málflutningur í Hæstarétti Íslands um matsbeiðni Þorsteins Más Baldvinssonar í miskabótamáli hans gegn Seðlabanka Íslands. Í febrúar í fyrra úrskurðaði Persónuvernd að varðveisla Seðlabankans á persónuupplýsingum um Þorsteinn hefði verið brot á lögum um persónuvernd. Um er að ræða gögn sem safnað var við húsleit Seðlabankans og sérstaks saksóknara hjá Samherja í mars 2012.

Samkvæmt úrskurði Landsréttar, sem samþykkti kröfu Þorsteins um að dómkvaddur matsmaður myndi framkvæma matsbeiðni, er um að ræða ótilgreint magn af gögnum. Hins vegar hefur komið fram í fjölmiðlum og í málflutningi að um sé að ræða að minnsta kosti sex þúsund gígabæt af gögnum sem eru á þremur hörðum diskum og bankinn geymdi um Þorstein, starfsmenn og viðskiptavini Samherja með ólögmætum hætti.

Eftir úrskurð Persónuverndar um brot Seðlabankans bauð Þorsteinn bankanum að ljúka málinu með því að greiða honum táknrænar bætur upp á nokkur hundruð þúsund krónur.

Seðlabankinn hafnaði því og því stefndi Þorsteinn bankanum í febrúar á þessu ári. Þorsteinn krefst 2,2 milljóna í miskabætur en Seðlabankinn hefur tekið til varna með því að hafna því að í gögnunum séu að finna persónuupplýsingar um Þorstein. Því var óskað eftir að dómskvaddur matsmaður myndi rýna í gögnin og skila matsbeiðni um það.

Héraðsdómur hafnaði því en Landsréttur úrskurðaði að það bæri að dómkveðja matsmann. Seðlabankinn kærði úrskurðinn til Hæstaréttar en miskabótamál Þorsteins tefst á meðan.

„Það liggur ljóst fyrir að Seðlabankinn braut persónuverndarlög. Ég bauð þeim að ljúka þessu máli með smá upphæð sem þeir hafna eftir að það er búið að úrskurða um brotið. Þeir, bara eins og venjulega, telja sig hafna yfir það sem er nefnt lög og réttur líkt og fleiri ríkisstofnanir,“ segir Þorsteinn Már í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir fáa Íslendinga hafa fjárhagslega burði til að halda áfram með svona mál enda hafi nú málflutningur um umrædda matsbeiðni farið fram á öllum þremur dómstigum landsins.

„Ef þetta hefði verið fyrirtæki sem hefði brotið lög hefði það fengið háa fjársekt örugglega,“ segir Þorsteinn Már um Seðlabankann.

„Þeir hafna því að greiða mér lágar miskabætur þannig að ég þarf að fara með þetta til dómstóla. Það er búið að segja að þeir brutu á mér en þeir sætta sig ekki við niðurstöðu Landsréttar sem er mjög skýr í þessu máli og það er bara haldið áfram,“ segir Þorsteinn og vísar þar í niðurstöðu Landsréttar um að héraðsdómur eigi að dómkveðja matsmann til að meta gögnin. Rúm tvö ár eru síðan Landsréttur staðfesti dóm héraðsdóms um að Þorsteinn Már hefði sætt ólögmætri meingerð af hálfu Seðlabankans.

Bankinn lagði stjórnvaldssekt á Samherja en bæði Héraðsdómur og Landsréttur komust að þeirri niðurstöðu að Seðlabankinn hefði lagt til grundvallar ranga túlkun á refsiheimildum laga um gjaldeyrismál og að afgreiðsla og málsmeðferð bankans hefðu ekki verið í samræmi við lög.

Þorsteini voru dæmdar skaðaog miskabætur í kjölfarið og stjórnvaldssektin felld niður af Hæstarétti árið 2018. Þorsteinn segir merkilegt að í kjölfar þess  skuli bankinn enn halda uppi svona miklum vörnum í stað þess að vilja ljúka málinu með hraða, sem tengist gögnum sem bankinn safnaði í tengslum við umrætt gjaldeyrismál.

„Það er búið að brjóta á mér gróega í svokölluðu Seðlabankamáli sem var mjög ljótt mál,“ segir Þorsteinn og bætir við að ákvörðun bankans um að halda málinu gagnandi sýni að fjármunir skipta greinilega Seðlabankann ekki neinu máli.

„Þetta er mjög kostnaðarsamt og það er ekki bara lögmannskostnaður heldur eru þeir að halda dómskerfinu uppteknu sem er einnig mjög dýrt,“ segir Þorsteinn Már.

„Þeir ætla að þreyta menn og halda að þeir komist út úr málinu þannig. Það er algjört virðingarleysi fyrir fjármunum sem endurspeglast í þessu máli en fyrir mér endurspeglar þetta líka viðhorf þeirra til borgaranna,“ segir Þorsteinn Már.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.