Hagnaður Íslandsbanka nam 23,7 milljörðum króna í fyrra og arðsemi eigin fjár nam 12,3%. Hrein virðisrýrnun var jákvæð um 3 milljarða samanborið við neikvæða 8,8 milljarða árið áður. Lögð verður til 11,9 milljarða arðgreiðsla á aðalfundi. Þetta kemur fram í nýbirtu uppgjöri fyrir árið .
Vaxtamunur bankans dróst saman um 0,2% milli ára og nam 2,4% á árinu, en hreinar vaxtatekjur jukust um 2% vegna stærra lánasafns og námu 34 milljörðum. Hreinar þóknanatekjur hækkuðu um 22% milli ára og námu 12,9 milljörðum.
Áhættukostnaður útlána dróst verulega saman milli ára, úr 0,91% í 0,28%, og var kominn niður í 0,23% á síðasta ársfjórðungi. Hlutfall lána með svokallað laskað lánshæfi fell úr 2,9% í lok árs 2020 í 2,0% í lok síðasta árs.
Kostnaðarhlutfall – reglulegur stjórnunarkostnaður og framlag í innstæðutryggingasjóð sem hlutfall reglulegra heildarrekstrartekna – dróst einnig saman, úr 54,3% í 46,2%.
Útlán til viðskiptavina jukust um 7,9% á árinu, að mestu í formi fasteignalána, og innlán jukust um 65 milljarða eða 9,5%.