Úrskurðarefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt virkjanaleyfi Orkustofnunar vegna Hvammsvirkjunar úr gildi á grundvelli vatnatilskipunar.
Úrskurðurinn hefur ekki verið birtur en Arnór Snæbjörnsson, formaður nefndarinnar, staðfestir í samtali við Viðskiptablaðið að nefndin hafi fellt virkjanaleyfið úr gildi.
Landsvirkjun hefur um árabil unnið að rannsóknum og undirbúningi fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar. Uppsett afl virkjunarinnar á að vera 95 MW.
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti í vikunni framkvæmdaleyfi fyrir virkjunina. Sveitarstjórn Rangárþings-ytra á hins vegar enn eftir að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir sitt leyti og ákvað í gær að fresta kosningu um málið. Var sú ákvörðun tekin áður en úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála úrskurðaði enda var það gert í dag.
Þetta þýðir að áratuga deilum um virkjunina er hvergi nærri lokið.