Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í dag að virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar skyldi fellt úr gildi. Dómarinn telur að Umhverfisstofnun hafi skort lagastoð til að heimila breytingu á vatnshloti og því geti virkjunarleyfið ekki staðið.
Þá hefur heimild Umhverfisstofnunnar til breytinga á vatnshlotinu Þjórsá 1 verið ógild.
Ellefu landeigendur höfðuðu mál til ógildingar á leyfi Fiskistofu og heimild Umhverfisstofnunar til breytingar á vatnshloti. Við útgáfu virkjunarleyfis vegna Hvammsvirkjunar var gefin út framhaldsstefna og ákvörðun Orkustofnunar um útgáfu virkjunarleyfis bættist við málið. Leyfi Fiskistofu stendur óhaggað.
„Af dóminum má ráða að við innleiðingu vatnatilskipunar Evrópusambandsins hafi löggjafinn í raun gert Umhverfisstofnun ókleift að veita heimild til breytingar á vatnshloti fyrir byggingu vatnsaflsvirkjana og þar með sé ekki hægt að gefa út virkjunarleyfi,“ segir í tilkynningu frá Landsvirkjun.
„Upphafleg gerð lagafrumvarpsins hafi gert ráð fyrir því, en nefndarálit segi annað. Vilji löggjafans birtist ekki í lagaákvæðinu sjálfu með eins skýrum hætti og æskilegt hefði verið, að því er segir í héraðsdómi.“
Landsvirkjun segist ætla að fara yfir forsendur dómsins og meta hvaða áhrif hann hafi á framvindu verkefnisins. Nýjustu áætlanir gerðu ráð fyrir gangsetningu Hvammsvirkjunar síðla árs 2029 en fyrirtækið segir að það kunni að breytast nú.
„Frekari seinkun verkefnisins mun hafa mjög neikvæðar afleiðingar fyrir vöxt og viðgang samfélagsins, þar sem staðan í raforkukerfinu er þegar orðin mjög þröng.“
Orkustofnun veitti Landsvirkjun virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun í Þjórsá í september síðastliðnum. Þá samþykkti sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir Hvammsvirkjun í október, en þar áður hafði sveitarstjórn Rangárþings ytra samþykkt framkvæmdaleyfi fyrir sitt leyti. Þar með lágu öll leyfi fyrir til að hefja virkjunarframkvæmdir.
Áformað er að Hvammsvirkjun verði 740 GWst, 95 MW að stærð, sem þýðir að hún getur unnið svipaða orku og jarðvarmavirkjunin Þeistareykir á Norðurlandi gerir nú.
Fréttin var uppfærð eftir að Landsvirkjun sendi frá sér tilkynningu.