Úrvalsvísitalan hækkaði um hálft prósent í 3,2 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Tólf félög markaðarins hækkuðu í viðskiptum dagsins en aðeins Icelandair og Marel lækkuðu.
Vátryggingafélag Íslands, VÍS, leiddi hækkanir en bréf félagsins hækkuðu um 2,7% í 80 milljóna veltu. Gengi VÍS stendur nú í 18,8 krónum á hlut eftir 8,7% hækkun í vikunni. Dagslokagengi VÍS var síðast hærra um miðjan september síðastliðinn.
Mesta veltan, eða um 700 milljónir, var með hlutabréf Arion banka sem hækkuðu um 2,4%. Gengi Arion banka stendur nú í 152,5 krónum á hlut og er um 1,7% hærra en í lok síðasta árs. Hlutabréfaverð Kviku banka hækkaði einnig um 1,9% en gengi Íslandsbanka stóð óbreytt í 117 krónum.
Á First North-markaðnum var mesta veltan með hlutabréf fasteignafélagsins Kaldalóns sem má einkum rekja til 450 milljóna króna stakra viðskipta við lokun Kauphallarinnar. Um er að ræða viðskipti með 300 milljónir hluta, eða um 2,7% hlut í fasteignafélaginu, á genginu 1,50 krónur.