Hlutabréfaverð Vátryggingafélags Íslands, VÍS, hefur lækkað um hálft prósent í yfir hundrað milljóna veltu í fyrstu viðskiptum eftir opnun Kauphallarinnar í morgun. Gengi VÍS stóð í 19,2 krónum þegar fréttin var skrifuð.

VÍS og hluthafar Fossa fjárfestingarbanka tilkynntu í morgun að þeir hefðu ákveðið að hefja viðræður um kaup VÍS á öllu hlutafé í Fossum. Gert er ráð fyrir að hluthafar Fossa fái 260 milljón nýja hluti í VÍS fyrir hlutabréf sín, sem nemur 13,3% hlutafjár í VÍS eftir hlutafjáraukningu.

Hlutabréf Eimskips, sem birti ársuppgjör eftir lokun markaða í gær, hefur hækkað um meira en 2,5% í fyrstu viðskiptum í dag. Þá hefur Síminn hækkað um 0,9% í morgun en fjarskiptafélagið birti einnig ársuppgjör í gær og tilkynnti um fyrirhugaða 15,7 milljarða króna greiðslu til hluthafa með lækkun hlutafjár auk 500 milljóna arðgreiðslu.