VR, Landsamband íslenskra verzlunarmanna og Starfsgreinasamband Íslands hafa ákveðið að vísa viðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins (SA) til ríkissáttasemjara.

„Á meðan atvinnurekendur hlusta ekki á raddir tugþúsunda einstaklinga sem fyrir þá starfa í samningaviðræðum eins og þeim sem staðið hafa yfir síðustu vikur verður að leita annarra leiða,“ segir í tilkynningu á heimasíðu VR sem formenn félaganna þriggja skrifa undir.

Þeir segja að félögin hafi staðið þétt saman í viðræðum við síðustu vikur og freistað þess að ná nýjum samningi. Eftir stíf fundarhöld blasi nú við að of mikið ber á milli. „Samningur er ekki í sjónmáli og engar forsendur til að halda viðræðum áfram að óbreyttu.“

„Hrina kostnaðarhækkana skellur nú á launafólki; húsaleiga hefur hækkað, vextir, bensín, matvara og þjónustugjöld svo fátt eitt sé nefnt. Félögin krefjast kaupmáttaraukningar launa á samningstímanum en atvinnurekendur segja ekkert svigrúm til þess.“

Félögin kalla eftir markvissum aðgerðum til að ná niður verðbólgu, sem mældist 9,4% í síðasta mánuði, „en atvinnurekendur hafa ekkert fram að færa“. Jafnframt tala þeir um að hvert fyrirtækið á fætur öðru hafi skilað methagnaði í fyrra „og allt bendir til þess að árið í ár verði ekki síðra“.

„Það er holur hljómur í málflutningi atvinnurekenda þegar þeir halda því fram að launahækkanir keyri upp verðbólguna – það er búið að sýna fram á að svo sé ekki,“ halda formennirnir þrír fram.