Daði Kristjánsson, framkvæmdastjóri og einn stofnenda rafmyntasjóðsins Visku, segist almennt ekki tjá sig um gengi sjóðsins – sem hefur hækkað um 15% frá stofnun í júlíbyrjun þrátt fyrir að flestum rafmyntum hafi gengið nokkuð brösulega nýverið.

Hann staðfestir þó það sem heimildir blaðamanns höfðu hermt, að starfsemin sé nokkru flóknari en hjá einföldum fjárfestingasjóði.

„Við erum í raun bara með einskonar vogunarsjóðsfyrirkomulag á þessu enda sjóður fyrir fagfjárfesta,“ segir hann, og nefnir rúmar fjárfestingaheimildir, árangurstengda þóknun og virka stýringu sem almennt einkenni slíka sjóði.

Afleiður og gírun hluti af verkfærakassanum

Viska hefur samkvæmt heimildum blaðsins nokkuð víðtækar fjárfestingaheimildir þótt einblínt sé á markaði með rafmyntir og verðbréf tengd rafmyntaheiminum. Sem dæmi geta sjóðstjórar ákveðið að taka skortstöðu í – það er veðja á verðlækkun – tiltekinni rafmynt, þótt heilt yfir verði sjóðurinn ávallt að hafa hreina langa stöðu.

Þannig getur hann veðjað gegn einni rafmynt en með annarri, svoleiðis að jafnvel þótt báðar taki dýfu gæti það skilað eignasafninu í heild hagnaði ef sú sem veðjað var gegn fellur meira. Þá hefur sjóðurinn heimild til svokallaðrar gírunar – lántöku fyrir fjárfestingum – en þó upp að töluvert minna marki en gengur og gerist hjá hefðbundnum vogunarsjóðum.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.