Viðskiptastíð Bandaríkjanna og Kína stigmagnaðist í dag er Donald Trump for­seti Bandaríkjanna staðfesti nýja tolla á inn­flutning frá Kína, Mexíkó og Kanada.

Viðbrögð markaða voru strax neikvæð, en hluta­bréf í Bandaríkjunum og Evrópu tóku dýfu í kjölfar ákvörðunarinnar.

Kín­versk stjórn­völd grípa til gagnað­gerða strax er Kína svaraði með því að bæta 15 bandarískum fyrir­tækjum á lista yfir aðila sem sæta út­flutnings­tak­mörkunum.

Meðal fyrir­tækja á listanum eru dróna­fram­leiðandinn Skydio og gervi­greindar­fyrir­tækið Shield AI, sem sér­hæfir sig í gervi­greindar­lausnum fyrir dróna.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal er fyrir­tækjum á listanum meinað að fá af­henta tækni og búnað sem gæti verið notaður hernaðar­legum til­gangi. Þá mega kín­versk fyrir­tæki ekki nota búnað eða tækni frá fyrirtækjunum.

Þá bætti Kína einnig 10 bandarískum fyrir­tækjum á lista sinn yfir „óáreiðan­lega aðila“ sem úti­lokar þau al­farið frá öllum inn- og út­flutningi til og frá Kína, ásamt því að úti­loka þau frá nýjum fjár­festingum í landinu.

Þar á meðal er bandaríska líftækni­fyrir­tækið Illumina, sem mun þá ekki lengur fá að flytja erfða­greiningar­tæki til Kína. Kín­verska við­skiptaráðu­neytið sagði að að­gerðirnar væru viðbragð við fyrstu um­ferð tolla sem Trump setti í febrúar.

Saka Kína um ósann­gjarnar við­skipta­venjur

Trump-stjórnin hefur lengi sakað Kína um ósann­gjarna við­skipta­hætti og rök­styður tollana með því að þeir séu nauð­syn­legir til að vernda bandarískan iðnað.

Hins vegar hafa hag­fræðingar varað við því að tolla­stríð geti dregið úr hag­vexti og ýtt undir verðbólgu. Sér­fræðingar hjá JP­Morgan Chase hafa spáð því að verðlag muni hækka í mars, apríl og maí vegna hækkandi inn­flutnings­kostnaðar.

Kín­versk stjórn­völd hafa síðan lagt fram kæru hjá Alþjóða­við­skipta­stofnuninni (WTO) þar sem þau halda því fram að nýir tollar Bandaríkjanna brjóti al­var­lega gegn reglum stofnunarinnar.

Kína hefur áður reynt að fá WTO til að bregðast við fyrri tollum Bandaríkjanna, en úr­skurðar­kerfi stofnunarinnar hefur verið óvirkt síðan á fyrsta kjörtíma­bili Trumps.

Alþjóð­leg við­skipti í upp­námi

Ekki aðeins eru Bandaríkin og Kína undir áhrifum af nýju tollunum, heldur hefur Evrópu­sam­bandið einnig varað við því að tollaákvarðanir Bandaríkjanna gagn­vart Mexíkó og Kanada geti haft alþjóð­leg áhrif.

Sam­kvæmt yfir­lýsingu frá sam­bandinu ógna tollarnir „djúpum við­skipta­tengslum, fjár­festingaflæði og efna­hags­legum stöðug­leika beggja vegna At­lants­hafsins.“ Þá hefur Trump einnig hótað að leggja 25% tolla á vörur frá Evrópu­sam­bandinu, sem gæti leitt til frekari árekstra.

Vaxandi óvissa fyrir fyrir­tæki og neyt­endur

Á meðan stjórn­völd takast á um tolla eru fyrir­tæki víða um heim að reyna að finna lausnir. Í Chi­cago var óvissan áberandi á Ins­pi­red Home Show-vörusýningunni, þar sem fyrir­tæki kynntu vörur sínar með aug­lýsinga­skiltum sem áréttuðu að þær væru ekki undir áhrifum nýrra tolla.

Sum fyrir­tæki hafa þegar hafið flutning fram­leiðslu frá Kína til annarra landa, eins og Víetnam, til að forðast aukinn kostnað.

Bandarísk fyrir­tæki hafa einnig brugðist við með því að hækka verð á vörum og skera niður kostnað.

Véltækja­fram­leiðandinn Tormach í Wisconsin hefur þegar hækkað verð tvisvar á þessu ári, auk þess sem fyrir­tækið hefur dregið úr eftir­launa­greiðslum starfs­manna og fellt niður bónusa.

Óvissa um fram­haldið

Alþjóða­við­skiptaráðið (ICC) varar við því að efna­hags­kerfið gæti stefnt í álíka kreppu og á fjórða ára­tug síðustu aldar ef Bandaríkin halda áfram að auka verndar­tolla.

„Við höfum miklar áhyggjur af því að þetta gæti verið byrjunin á víta­hring sem leiðir til sam­bæri­legs ástands og á fjórða ára­tug síðustu aldar,“ segir Andrew Wil­son, að­stoðar­fram­kvæmda­stjóri ICC.

Óvissan um framtíð alþjóða­við­skipta er því meiri en nokkru sinni fyrr og markaðir um allan heim bregðast við með skörpum sveiflum.

Hvort og hvernig Bandaríkin og Kína ná sam­komu­lagi verður lykil­at­riði fyrir þróun efna­hags­lífsins á næstu mánuðum.