Viðskiptastíð Bandaríkjanna og Kína stigmagnaðist í dag er Donald Trump forseti Bandaríkjanna staðfesti nýja tolla á innflutning frá Kína, Mexíkó og Kanada.
Viðbrögð markaða voru strax neikvæð, en hlutabréf í Bandaríkjunum og Evrópu tóku dýfu í kjölfar ákvörðunarinnar.
Kínversk stjórnvöld grípa til gagnaðgerða strax er Kína svaraði með því að bæta 15 bandarískum fyrirtækjum á lista yfir aðila sem sæta útflutningstakmörkunum.
Meðal fyrirtækja á listanum eru drónaframleiðandinn Skydio og gervigreindarfyrirtækið Shield AI, sem sérhæfir sig í gervigreindarlausnum fyrir dróna.
Samkvæmt The Wall Street Journal er fyrirtækjum á listanum meinað að fá afhenta tækni og búnað sem gæti verið notaður hernaðarlegum tilgangi. Þá mega kínversk fyrirtæki ekki nota búnað eða tækni frá fyrirtækjunum.
Þá bætti Kína einnig 10 bandarískum fyrirtækjum á lista sinn yfir „óáreiðanlega aðila“ sem útilokar þau alfarið frá öllum inn- og útflutningi til og frá Kína, ásamt því að útiloka þau frá nýjum fjárfestingum í landinu.
Þar á meðal er bandaríska líftæknifyrirtækið Illumina, sem mun þá ekki lengur fá að flytja erfðagreiningartæki til Kína. Kínverska viðskiptaráðuneytið sagði að aðgerðirnar væru viðbragð við fyrstu umferð tolla sem Trump setti í febrúar.
Saka Kína um ósanngjarnar viðskiptavenjur
Trump-stjórnin hefur lengi sakað Kína um ósanngjarna viðskiptahætti og rökstyður tollana með því að þeir séu nauðsynlegir til að vernda bandarískan iðnað.
Hins vegar hafa hagfræðingar varað við því að tollastríð geti dregið úr hagvexti og ýtt undir verðbólgu. Sérfræðingar hjá JPMorgan Chase hafa spáð því að verðlag muni hækka í mars, apríl og maí vegna hækkandi innflutningskostnaðar.
Kínversk stjórnvöld hafa síðan lagt fram kæru hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) þar sem þau halda því fram að nýir tollar Bandaríkjanna brjóti alvarlega gegn reglum stofnunarinnar.
Kína hefur áður reynt að fá WTO til að bregðast við fyrri tollum Bandaríkjanna, en úrskurðarkerfi stofnunarinnar hefur verið óvirkt síðan á fyrsta kjörtímabili Trumps.
Alþjóðleg viðskipti í uppnámi
Ekki aðeins eru Bandaríkin og Kína undir áhrifum af nýju tollunum, heldur hefur Evrópusambandið einnig varað við því að tollaákvarðanir Bandaríkjanna gagnvart Mexíkó og Kanada geti haft alþjóðleg áhrif.
Samkvæmt yfirlýsingu frá sambandinu ógna tollarnir „djúpum viðskiptatengslum, fjárfestingaflæði og efnahagslegum stöðugleika beggja vegna Atlantshafsins.“ Þá hefur Trump einnig hótað að leggja 25% tolla á vörur frá Evrópusambandinu, sem gæti leitt til frekari árekstra.
Vaxandi óvissa fyrir fyrirtæki og neytendur
Á meðan stjórnvöld takast á um tolla eru fyrirtæki víða um heim að reyna að finna lausnir. Í Chicago var óvissan áberandi á Inspired Home Show-vörusýningunni, þar sem fyrirtæki kynntu vörur sínar með auglýsingaskiltum sem áréttuðu að þær væru ekki undir áhrifum nýrra tolla.
Sum fyrirtæki hafa þegar hafið flutning framleiðslu frá Kína til annarra landa, eins og Víetnam, til að forðast aukinn kostnað.
Bandarísk fyrirtæki hafa einnig brugðist við með því að hækka verð á vörum og skera niður kostnað.
Véltækjaframleiðandinn Tormach í Wisconsin hefur þegar hækkað verð tvisvar á þessu ári, auk þess sem fyrirtækið hefur dregið úr eftirlaunagreiðslum starfsmanna og fellt niður bónusa.
Óvissa um framhaldið
Alþjóðaviðskiptaráðið (ICC) varar við því að efnahagskerfið gæti stefnt í álíka kreppu og á fjórða áratug síðustu aldar ef Bandaríkin halda áfram að auka verndartolla.
„Við höfum miklar áhyggjur af því að þetta gæti verið byrjunin á vítahring sem leiðir til sambærilegs ástands og á fjórða áratug síðustu aldar,“ segir Andrew Wilson, aðstoðarframkvæmdastjóri ICC.
Óvissan um framtíð alþjóðaviðskipta er því meiri en nokkru sinni fyrr og markaðir um allan heim bregðast við með skörpum sveiflum.
Hvort og hvernig Bandaríkin og Kína ná samkomulagi verður lykilatriði fyrir þróun efnahagslífsins á næstu mánuðum.