Stærstu eignastýringarfyrirtæki og vogunarsjóðir heims, sem stýra þúsundum milljarða dollara, mæla með því að fjárfestar taki varfærnislega afstöðu með aukinni áherslu á skuldabréf, sérstaklega í ljósi þess að Seðlabanki Bandaríkjanna er ólíklegur til að lækka vexti frekar.
Eitt helsta fjárfestingalíkan eignastýringarfyrirtækisins Vanguard, sem gefið var út sem hluti af horfum fyrirtækisins fyrir árið, mælir nú með því að fjármálaráðgjafar og auðugir einstaklinga haldi aðeins 38% af eignasafni sínu í hlutabréfum og setji restina í skuldabréf.
Þetta er lækkun frá 41% í ár og 50% árið 2023, en það er með er verið að snúa hinu sívinsæla 60/40 eignasafni á hvolf.
Vinna við nýjustu spá Vanguard hófst eftir nóvemberkosningar í Bandaríkjunum, þar sem Donald Trump var kjörinn forseti ásamt því að Repúblikanar náðu meirihluta í þinginu.
Kosninganiðurstaðan leiddi til tímabundinnar hækkunar á hlutabréfamarkaði, sem hefur síðan minnkað. Þrátt fyrir bjartsýni fjárfesta um „Maganomics“, hafa hagfræðingar verið svartsýnni og bent á áhyggjur af hárri verðbólgu og vaxtastigi.
Áhersla Vanguard á meiri skuldabréfaeign kemur í kjölfar tveggja ára tímabils mikilla hækkana á mörkuðum, sem hafa gert hlutabréf dýr að mati sumra.
Hlutfall markaðsvirðis og hagnaðar félaga (P/E) í S&P 500-vísitölunni hefur hækkað úr 19,2 í september 2022 í tæplega 30 nú í vikunni.
Einnig hafa aðrir eignastýringarsjóðir, eins og lausnateymi Invesco, mælt með aukinni áherslu á skuldabréf ásamt því að leggja áherslu á áhættuminni hlutabréf í t.d. fyrirtækjum sem sinna heilbrigðisþjónustu, selja neysluvörur eða veitufyrirtækjum.
Charles Shriver, sjóðsstjóri hjá T. Rowe Price, segir að teymið hans muni enn halda sig við hlutabréf en hann muni þó forðast dýr vaxtarfyrirtæki.
Will Smith, sem stýrir skuldabréfafjárfestingum hjá Alliance Bernstein, bætti við: „Hlutabréf eru mjög dýr miðað við sögulegt samhengi. Það verður mjög erfitt að fá jafn háa ávöxtun á hlutabréfum næsta áratuginn eins og síðasta áratug.“
Todd Schlanger, fjárfestingastjóri Vanguard, segir að langtímalíkan þeirra sé að horfa á næstu tíu ár og miði að því að stýra áhættu.
„Það getur verið tímabil þar sem frammistaða verður undir væntingum,“ sagði hann. „En við lítum enn á líkanið sem tæki til að takast á við áhættu, þar sem hækkandi verð á hlutabréfum í Bandaríkjunum eykur líkurnar á minni ávöxtun og meiri sveiflum.“