Stærstu eignastýringar­fyrir­tæki og vogunar­sjóðir heims, sem stýra þúsundum milljarða dollara, mæla með því að fjár­festar taki varfærnis­lega af­stöðu með aukinni áherslu á skulda­bréf, sér­stak­lega í ljósi þess að Seðla­banki Bandaríkjanna er ólík­legur til að lækka vexti frekar.

Eitt helsta fjár­festingalíkan eignastýringar­fyrir­tækisins Vangu­ard, sem gefið var út sem hluti af horfum fyrir­tækisins fyrir árið, mælir nú með því að fjár­málaráðgjafar og auðugir ein­staklinga haldi aðeins 38% af eigna­safni sínu í hluta­bréfum og setji restina í skulda­bréf.

Þetta er lækkun frá 41% í ár og 50% árið 2023, en það er með er verið að snúa hinu sívinsæla 60/40 eigna­safni á hvolf.

Vinna við nýjustu spá Vangu­ard hófst eftir nóvember­kosningar í Bandaríkjunum, þar sem Donald Trump var kjörinn for­seti ásamt því að Repúblikanar náðu meiri­hluta í þinginu.

Kosninganiðurstaðan leiddi til tíma­bundinnar hækkunar á hluta­bréfa­markaði, sem hefur síðan minnkað. Þrátt fyrir bjartsýni fjár­festa um „Maga­nomics“, hafa hag­fræðingar verið svartsýnni og bent á áhyggjur af hárri verðbólgu og vaxta­stigi.

Áhersla Vangu­ard á meiri skulda­bréfa­eign kemur í kjölfar tveggja ára tíma­bils mikilla hækkana á mörkuðum, sem hafa gert hluta­bréf dýr að mati sumra.

Hlut­fall markaðsvirðis og hagnaðar félaga (P/E) í S&P 500-vísitölunni hefur hækkað úr 19,2 í septem­ber 2022 í tæp­lega 30 nú í vikunni.

Einnig hafa aðrir eignastýringar­sjóðir, eins og lausna­t­eymi Invesco, mælt með aukinni áherslu á skulda­bréf ásamt því að leggja áherslu á áhættu­minni hluta­bréf í t.d. fyrir­tækjum sem sinna heil­brigðisþjónustu, selja neyslu­vörur eða veitu­fyrir­tækjum.

Charles Shriver, sjóðs­stjóri hjá T. Rowe Price, segir að teymið hans muni enn halda sig við hluta­bréf en hann muni þó forðast dýr vaxtar­fyrir­tæki.

Will Smith, sem stýrir skulda­bréfa­fjár­festingum hjá Alli­ance Bern­stein, bætti við: „Hluta­bréf eru mjög dýr miðað við sögu­legt sam­hengi. Það verður mjög erfitt að fá jafn háa ávöxtun á hluta­bréfum næsta ára­tuginn eins og síðasta ára­tug.“

Todd Schlang­er, fjár­festinga­stjóri Vangu­ard, segir að langtímalíkan þeirra sé að horfa á næstu tíu ár og miði að því að stýra áhættu.

„Það getur verið tíma­bil þar sem frammistaða verður undir væntingum,“ sagði hann. „En við lítum enn á líkanið sem tæki til að takast á við áhættu, þar sem hækkandi verð á hluta­bréfum í Bandaríkjunum eykur líkurnar á minni ávöxtun og meiri sveiflum.“