Samkvæmt The Wall Street Journal eru ein vinsælustu viðskiptin hjá vogunarsjóðum um þessar mundir ekki tengd rafmyntum, rafbílum eða gervigreind heldur eru sjóðirnir að sækjast í ávöxtun í Argentínu.
Árum saman hefur Argentína verið þekkt fyrir vanskil og að valda fjárfestum vonbrigðum en eftir kjör Javier Milei í fyrra er staðan önnur.
Vogunarsjóðir og fjárfestar hafa verið að fjárfesta duglega í Argentínu á árinu í von um að stefna Milei nái að snúa efnahag landsins við.
Þrátt fyrir að stutt sé síðan Milei tók við sem forseti landsins er ávöxtun fjárfesta nú þegar gríðarleg en hlutabréf í Kauphöllinni í Buenos Aires hafa hækkað einna mest á heimsvísu á árinu samhliða því að verð á skuldabréfum hefur rokið upp.
„Þessi U-beygja hefur verið stórkostleg”
Kauphallarsjóðir sem fylgja MSCI Argentina vísitölunni hafa hækkað um meira en 60% á árinu.
Milei tók við forsetaembættinu í desember í fyrra en hann lofaði að draga verulega úr útgjöldum ríkissjóðs til að rétta af fjárlagahalla landsins og ná tökum á verðbólgunni.
Verðbólga í Argentínu hefur lækkað gríðarlega og skilaði ríkið afgangi í fyrsta sinn í áratugi á þriðja ársfjórðungi. Samkvæmt WSJ sýna nýjustu tölur að hagvöxtur var um 3,9% á sama fjórðungi.
Árangur Milei hefur haft jákvæð áhrif á fjárfesta sem áðu fyrr vildu ekki fjárfesta í landinu vegna óreiðu í stjórnmálunum, óðaverðbólgu og útgjaldafyllerís stjórnavalda.
„Þessi U-beygja hefur verið stórkostleg,” segir Genna Lozovsky, framkvæmdastjóri fjárfestinga hjá Sandglass Capital Advisors, sjóðsstýringarfyrirtæki í London.
„Ef fjárheimildin sem Milei hefur komið á heldur sér, ef þróun verðhjöðnunar heldur áfram og ef hagkerfið heldur áfram að blómstra, ættu skuldabréfaeigendur að búast við verulegum hagnaði,“ bætir Lozovsky við.
Skuldabréf Argentínu hafa þegar hækkað verulega í verði. Einn mælikvarði á erlendar skuldir landsins, ICE BofA US Dollar Argentina Sovereign Index, hefur skilað um 90% heildarhagnaði á þessu ári.
Á sama tíma hefur S&P Merval vísitalan hækkað um meira en 160% á þessu ári miðað við dagslokagengi mánudagsins, langt umfram hlutabréfavísitölur í þróuðum, nýmarkaðs- og jaðarmörkuðum.
Að teknu tilliti til gjaldeyrismismunar hefur vísitalan hækkað meira en 100% í bandaríkjadölum. Til samanburðar hefur S&P 500 hækkað um 25% á sama tímabili.
Fjárfestingarfyrirtæki sem einbeita sér að nýmarkaðsríkjum og neyðarskuldum hafa verið á meðal helstu hagnýtingaraðila.
„Argentína var einn af okkar stærstu sigurvegurum á þessu ári,“ segir Aaron Stern, framkvæmdastjóri fjárfestinga hjá Converium Capital, margþættri vogunarsjóðsstofnun í Montreal sem er með um 500 milljónir Bandaríkjadala í stýringu.
„Venjulega finnst mér ekki gaman að segja „í þetta skiptið er þetta öðruvísi,“ en ég held að innlendar og alþjóðlegar aðstæður séu hagstæðari nú en þær hafa verið nokkurn tímann í sögu Argentínu,“ sagði hann.
Stern segir að Converium hafi byrjað að kaupa argentínsk ríkisskuldabréf stuttu eftir að sjóðurinn var stofnaður, árið 2021.
Skuldabréfin voru afar ódýr eftir endurskipulagningu árið 2020. Converium veðjaði á að lítið væri í húfi þar sem verðið var svo lágt. Á hinn bóginn töldu þeir að umtalsverður hagnaður væri mögulegur ef ástandið í Argentínu batnaði.
Þá hefur skuldabréfaeign Shiprock, sem hefur umsjón með tæpum 800 milljónum Bandaríkjadala, í Argentínu stuðlað að 34% hagnaði sjóðsins fram í nóvember á þessu ári, samkvæmt heimildarmanni WSJ.
Sjóðurinn hefur fjárfest duglega í ríkisskuldabréfum, fyrirtækjaskuldum og skuldum Buenos Aires-héraðs, sagði heimildarmaðurinn.
Vongóðir um samning við AGS
Ríkisafskipti af gjaldeyrismörkuðum hafa gert það erfitt fyrir Argentínu að endurbyggja gjaldeyrisforða sinn.
Landið á í margra milljarða dollara gjaldeyrisskorti, sem vekur áhyggjur meðal fjárfesta um getu þess til að standa við skuldbindingar gagnvart skuldabréfaeigendum.
Til að styrkja fjárhagsstöðu landsins hefur Milei sótt um nýtt lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS), skref sem myndi gera stjórn hans kleift að afnema ströng gjaldeyrishöft sem hafa kæft atvinnulífið í Argentínu árum saman.
Sumir fjárfestar eru vongóðir um að vaxandi tengsl Mileis við Trump og Elon Musk hjá Tesla muni hjálpa Argentínu að tryggja samning við AGS, sem er staðsettur í Washington D.C.
Talskona AGS staðfesti á blaðamannafundi í mánuðinum að viðræður við Argentínu væru í fullum gangi.
„Veit nákvæmlega hvað hann vill gera“
Franska fjárfestingafyrirtækið Carmignac hóf íhaldssamar fjárfestingar í Argentínu síðasta haust þegar Milei var að sækja í sig veðrið í skoðanakönnunum.
Nú á fyrirtækið vænan hlut í argentínskum ríkisskuldabréfum auk þess að eiga um 200 milljónir dollara í argentínskum hlutabréfum.
Stjórnendur eignasafns fyrirtækisins segjast vera bjartsýnir á efnahagslega þróun Argentínu – viðhorf sem styrktist enn frekar eftir að lítið teymi, þar á meðal stofnandi fyrirtækisins, Edouard Carmignac, hitti Milei í Argentínu í síðasta mánuði.
Samkvæmt WSJ fór teymi Carmignac af fundinum með bros á vör.
Milei „veit nákvæmlega hvað hann vill gera og hann er með mjög skýra stefnu,“ sagði Xavier Hovasse, yfirmaður nýmarkaðshlutabréfa hjá Carmignac, eftir fundinn.