Volkswagen hefur selt bílaverksmiðju sína í Xinjiang-héraði í Kína en verksmiðjan hafði vakið neikvæða athygli vegna meintra mannréttindabrota. Verksmiðjan var samvinnuverkefni milli Volkswagen og kínverska bílaframleiðandans SAIC Motor.
Samkvæmt WSJ seldi Volkswagen verksmiðjuna af efnahagslegum ástæðum og var salan hluti af víðtækari stefnumótun í starfsemi sinni í Kína.
Verksmiðjan var staðsett í Urumqi, höfuðborg Xinjiang, þar sem Bandaríkin og önnur lönd hafa sakað Kína um að fremja þjóðarmorð á Úígúrum, tyrkneskumælandi þjóð í héraðinu, ásamt því að beita nauðungarvinnu.
Samkvæmt úttekt Volkswagen á síðasta ári fann fyrirtækið engar vísbendingar um mannréttindabrot í verksmiðjunni.
Þýski bílaframleiðandinn hefur engu að síður verið að missa markaðshlutdeild á kínverska markaðnum þar sem kínverskir neytendur flykkjast nú að innlendum rafbílaframleiðendum eins og BYD.