Volvo hefur fallið frá áformum um að framleiða eingöngu rafbíla frá og með árinu 2030. Með því að aðlaga áform sín um rafbílaframleiðslu segist bílaframleiðandinn vilja mæta betur þörfum neytenda auk þess sem hann ber fyrir sig breyttar markaðsaðstæður.
Volvo hefur fallið frá áformum um að framleiða eingöngu rafbíla frá og með árinu 2030. Með því að aðlaga áform sín um rafbílaframleiðslu segist bílaframleiðandinn vilja mæta betur þörfum neytenda auk þess sem hann ber fyrir sig breyttar markaðsaðstæður.
Volvo tilkynnti í mars 2021 að félagið hygðist færa framleiðslu sína alfarið yfir í rafbíla frá og með árinu 2030.
Í tilkynningu sem Volvo sendi frá sér í dag segist bílaframleiðandinn nú stefna að því að 90-100% af sölu félagsins á heimsvísu árið 2030 verði annars vegar hreinir rafbílar og hins vegar tengiltvinnbílar. Félagið gerir ráð fyrir að 50-60% af sölu félagsins árið 2025 verði annað hvort rafbílar eða tengiltvinnbílar.
Volvo, sem er í meirihlutaeigu kínverska félagsins Geely, segir að frá því að félagið kynnti upphaflegu markmið sín árið 2021 hafi uppsetning hleðsluinnviða gengið hægar en gert var ráð fyrir, stjórnvöld víða hafa dregið úr hvötum til rafbílakaupa auk þess sem nýlega voru lagðir tollar á rafbíla á stórum mörkuðum.
Forstjóri Volvo Cars, Jim Rowan, segir að bílaframleiðandinn telji enn að framtíði félagsins liggi í sölu rafbíla. Það hafi hins vegar komið í ljós að aðlögun framleiðslunnar verði ekki línuleg þar sem misjafnt er eftir mörkuðum hversu hröð rafbílavæðingin er.
Volvo hefur á undanförnum árum gefið út fimm týpur af rafbílum; EX40, EC40, EX30, EM90 og EX90.