Eigendur barnavöruverslunarinnar Von verslun, Eyrún Anna Tryggvadóttir og Olga Helena Ólafsdóttir hafa gengið frá kaupum á barnafataversluninni Bíum Bíum sem hefur skapað sér sess á barnavörumarkaðnum frá stofnun árið 2014.
Þau Drífa Hilmarsdóttir, Dóra Sif Ingvarsdóttir og Bjarni Þór Viðarsson, stofnendur Bíum Bíum, ákváðu að einbeita sér að öðrum verkefnum og höfðu því samband við Eyrúnu Önnu og Olgu Helenu í vor. Söluferlinu lauk á dögunum og fengu þær afhenta lykla að verslun Bíum Bíum í Síðumúla 21 fyrir viku síðan.
„Okkur fannst þetta spennandi en við höfum alltaf borið mikla virðingu fyrir eigendum Bíum Bíum. Þau vildu að verslunin færi í hendurnar á einhverjum sem getur tekið boltann áfram og hefur metnað og kraft til að taka Bíum Bíum lengra,“ segir Eyrún Anna. „Við erum að taka við fyrirtæki sem er ofboðslega vel rekið og við sjáum fullt af tækifærum til að vaxa frekar.“
Halda í bæði vörumerkin
Von verslun býður upp á leikföng, húsgögn, föt og aðrar barnavörur. Bíum Bíum, sem velti 181 milljón í fyrra, sérhæfir sig hins vegar í fjölbreyttu úrvali af barnafötum fyrir breiðari aldurshóp og verslunin er með einkadreifingarsamning við vörumerki frá Danmörku sem hafa notið vinsælda hér á landi.
Eyrún Anna og Olga Helena hyggjast reka verslanirnar áfram undir sitt hvoru nafni. Markmiðið er þó að verða sér úti um stærra húsnæði sem rúmar báðar verslanir undir sama þaki. Með því verði hægt að bjóða upp á betri þjónustu ásamt því að ná fram betri yfir sýn og kostnaðarhagræðingu. Auk þess leggja þær áherslu á að styrkja netverslunina og hafa verslanirnar sýnilegar á samfélagsmiðlum.
„Við viljum halda uppi þeirri góðu þjónustu sem fyrri eigendur gerðu svo vel. Viðskiptavinir sækja í þjónustuna og vilja koma við vörurnar og máta. Fólki líkaði afar vel við þau og nú er komið að okkur að standa okkur.“
Nánar er fjallað um Von og Bíum Bíum í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið.