Barnavöruverslunin Von verslun hefur opnað á ný í sameiginlegu verslunarrými með BíumBíum að Síðumúla 21 sem hefur verið stækkað og tekið breytingum. Eigendur verslananna segja að með því að hafa þær undir sama þaki megi ná fram hagræðingu og betri yfirsýn yfir reksturinn.
Viðskiptablaðið sagði frá því í haust að Eyrún Anna Tryggvadóttir og Olga Helena Ólafsdóttir, eigendur Vonar verslunar, hefðu gengið frá kaupum á BíumBíum. Í samtali við Viðskiptablaðið segjast þær strax hafa komið auga á tækifæri til sóknar.
„Fyrst og fremst voru tækifæri til úrbóta á ýmsum stöðum líkt og að færa verslunina meira yfir á netið og gefa þannig viðskiptavinum okkar á landsbyggðinni betri aðgang að vörum BíumBíum. Einnig höfum við unnið að því að styrkja stöðu okkar á samfélagsmiðlum og taka verslunina í gegn.“
Von verslun hefur verið til húsa í Ármúla 40 undanfarin tvö ár og BíumBíum í Síðumúla 21 í fjölmörg ár. Eyrún Anna og Olga Helena segjast hafa skoðað húsnæði í kringum sig en það hafi nær ekkert verið í boði á markaðnum sem hentaði þeim. Því ákváðu þær að lokum að stækka rýmið í Síðumúlanum.
„Það er alltaf áhætta að flytja fyrirtæki á nýja staði, sérstaklega þegar viðskiptavinir BíumBíum eru fleiri í versluninni en á netinu ólíkt Von verslun. Um 60% af sölu Vonar verslunar er í gegnum heimasíðuna en í BíumBíum er 60% af sölunni í versluninni sjálfri. Því var ljóst að þessi kostur var bestur fyrir okkur að svo stöddu.“
Von verslun sérhæfir sig í leikföngum, barnahúsgögnum og barnavörum en BíumBíum býður upp á úrval af barnafatamerkjum, þar á meðal frá vörumerki frá Danmörku sem hafa notið vinsælda hér á landi.