Landsvirkjun tekur þátt í söluferli fyrir langtímavörur, þ.e. grunnorku og mánaðarblokkir, sem Vonarskarð hefur auglýst í maí og júní. Fyrra söluferlið fyrir grunnorku var í dag þar sem Landsvirkjun seldi rúmlega 90 GWst af raforku fyrir um 700 milljónir króna. Söluferli fyrir mánaðarblokkir verður síðan á morgun.

Frá þessu er greint í tilkynningu þar sem segir að þetta séu fyrstu skref orkufyrirtækis þjóðarinnar inn á skipulegan raforkumarkað. Þátttaka verði endurmetin þegar reynsla hefur fengist.

Tvö fyrirtæki hafa fengið leyfi ráðherra til reksturs raforkumarkaðar hér á landi, annars vegar Vonarskarð, sem heldur utan um viðskipti á heildsölumarkaði rafmagns og tók til starfa í síðasta mánuði, og hins vegar Elma orkuviðskipti, dótturfélag Landsnets sem stefnir á að hefja viðskipti í byrjun næsta árs.

Hvað Elmu varðar hefur Landsvirkjun verið í sambandi við fyrirtækið um mögulega þátttöku á markaði fyrir skammtímavörur.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir stofnun skipulegs raforkumarkaðar hér á landi vera jákvætt skref og það verði spennandi að fylgjast með þróun hans.

„Vonir okkar standa til þess að samkeppni á raforkumarkaði aukist enn frekar í kjölfarið og að gegnsæi í verðmyndun verði betra. Raforkumarkaðir Elmu og Vonarskarðs eru einnig mikilvægur liður í að auðvelda innkomu nýrra aðila sem vinna raforku,“ segir Hörður.

Markaðslausnir hagkvæmari en núverandi fyrirkomulag

Fyrirkomulag raforkuviðskipta hér á landi sker sig nokkuð úr í alþjóðlegum samanburði en greint var frá því í Viðskiptablaðinu í síðustu viku að núverandi fyrirkomulag raforkuviðskipta á Íslandi sé úr sér gengið og hindrun í vegi orkuskipta og skilvirks raforkukerfis, samkvæmt nýrri skýrslu Landsnets.

Mikil lóðrétt samþætting er á markaðnum á Íslandi.- Landsvirkjun er eitt markaðsráðandi fyrirtæki og framleiðir um 75% af raforkunni á Íslandi en aðrir orkuframleiðendur versla nánast ekkert við hver annan.

Nokkur fyrirtæki kaupa orku frá framleiðendum og selja til notenda á smásölumarkaði, þ.e. heimila og fyrirtækja sem ekki flokkast sem stórnotendur. Árið 2022 keyptu þau fyrirtæki um 2,03 TWst, sem er aðeins um 10% af heildarmagni raforku.

Þetta hefur í för með sér að takmörkuð viðskipti eru á milli markaðsaðila sem skapar aðgangshindranir á markaði þar sem gagnsæi skortir og verðmerki eru skekkt. Erfitt sé fyrir nýja aðila að koma inn í slíkum aðstæðum.

Kom fram í skýrslu Landsnets að til skemmri tíma dragi verðlagning, sem tekur mið af stöðu framboðs og eftirspurnar, úr orkusóun þegar framboðsstaða er slæm og hvetur til aukinna umsvifa þegar staðan er góð. Markaðslausnir séu talsvert hagkvæmari en núverandi fyrirkomulag, þar sem gripið er til skömmtunar og skerðinga þegar skortur er á raforku.