Stjórn Arion banka hefur sent frá sér tilkynningu í kjölfar niðurstöðu stjórnar Íslandsbanka að afþakka boð fyrrnefnda bankans um samrunaviðræður.
„Þó að ekki verði af samrunaviðræðum nú, vonar stjórn Arion banka að hugmyndin verði kveikja að frekari umræðu um skipan og umgjörð fjármálakerfisins og hvernig það geti best sinnt hlutverki sínu með skilvirkum og hagkvæmum hætti,“ segir í tilkynningu Arion til Kauphallarinnar í morgun.
Stjórn Arion segist sannfærð um að samruni bankanna feli í sér einstakt tækifæri til breytinga á íslensku fjármálakerfi og sé jákvæður valkostur fyrir neytendur, hluthafa og íslenskt efnahagslíf.
Hún virði þó niðurstöðu stjórnar Íslandsbanka og þakkar henni fyrir að hafa gefið sér tíma til að meta gaumgæfilega sýndan áhuga.
Stjórn Arion lýsti opinberlega yfir áhuga á að hefja viðræður við stjórn Íslandsbanka um samruna bankanna þann 14. febrúar síðastliðinn. Arion birti samhliða ítarlegt bréf Benedikts Gíslasonar, bankastjóra Arion, og Paul Horner, stjórnarformanns banks, til forsvarsmanna Íslandsbanka.
Stjórn Íslandsbanka, sem fékk tveggja vikna frest til að svara boðinu, tilkynnti í gærkvöldi um að hún hefði ákveðið að afþakka boðinu í ljósi að þessi að henni þyki ólíklegt að samruninn yrði samþykktur af Samkeppniseftirlitinu við núverandi aðstæður nema gegn ströngum og afar íþyngjandi skilyrðum.
Íslandsbanki sagðist hins vegar ætla að leitast eftir samtali við stjórnvöld, Seðlabankann og aðra hagsmunaaðila um það hvernig auka megi samstarf um innviði fjármálakerfisins í því skyni að ná fram aukinni hagræðingu til hagsbóta fyrir viðskiptavini og hluthafa og á sama tíma efla samkeppni á fjármálamarkaði.