Líftæknifyrirtækið Bluebird Bio, sem eitt sinn var metið á 70 milljarða danskra króna, eða um 1.365 milljarða íslenskra króna á gengi dagsins, hefur nú verið selt fyrir einungis 200 milljónir danskra króna eða 3,9 milljarða íslenskra króna.

Fyrirtækið, sem hafði þróað þrjár samþykktar genameðferðir, hefur átt í miklum fjárhagslegum erfiðleikum að undanförnu og segja stjórnendur að eina leiðin til að koma í veg fyrir gjaldþrot væri að selja félagið.

Einkafjárfestingarsjóðirnir Carlyle og SK Capital hafa keypt fyrirtækið og hyggjast taka það af markaði.

Sam­kvæmt danska við­skipta­miðlinum Børsen var félagið vonar­stjarna líftækni­lyfja­iðnaðarins um tíma en á árunum 2014 til 2018 hækkaði hluta­bréfa­verð félagsins um 1800%.

Árið 2019 gerði félagið sam­starfs­samning við danska lyfja­fyrir­tækið Novo Nor­disk en for­stjóri félagsins á árunum 2010 til 2021 var hinn hálf­danski Nick Leschly, sem er sonur dönsku tennis­stjörnunnar Jan Leschly.

Há verðlagning til vandræða

Ástæða hrunsins liggur að miklu leyti í háu verði meðferða fyrirtækisins. Bluebird Bio sérhæfir sig í genameðferðum sem geta, í sumum tilvikum, læknað sjaldgæfa og alvarlega sjúkdóma.

Þegar fyrsta genameðferð fyrirtækisins, Zynteglo, var samþykkt í Evrópu árið 2019 var verð fyrir eina meðferð sett á 12 milljónir danskra króna eða um 240 milljónir íslenskra króna.

Fyrirtækið rökstuddi verðlagninguna með vísan í þróunarkostnað og samfélagslegt gildi þess að breyta alvarlega veikum einstaklingum í fullvinnufæra borgara.

Evrópsk heilbrigðiskerfi reyndust hins vegar treg til að greiða slíkar upphæðir og árið 2021 ákvað Bluebird Bio að yfirgefa Evrópumarkaðinn og einblína á Bandaríkin.

Þáverandi forstjóri, Nick Leschly, gagnrýndi evrópskan markað og sagði hann „brotinn“ en Bluebird Bio gaf út yfirlýsingu þar sem fullyrt var að Evrópa styddi ekki nógu vel við nýsköpun og langtímaávinning erfðameðferða.

Hins vegar gekk söluferlið ekki heldur vel í Bandaríkjunum og samkvæmt nýjustu fjárhagsupplýsingum hafði fyrirtækið aðeins selt 57 meðferðir samtals af öllum þremur samþykktum lyfjum sínum.

Fjárhagserfiðleikar Bluebird Bio hafa verið augljósir lengi en á þriðja ársfjórðungi 2024 nam tekjutap fyrirtækisins 430 milljónum danskra króna, en tekjur voru einungis 75 milljónir danskra.

Þar að auki rannsaka bandarísk heilbrigðisyfirvöld nú hvort ein af meðferðum fyrirtækisins, Skysona, geti aukið líkur á blóðkrabbameini.

Forstjóri Bluebird Bio, Andrew Obenshain, segir í yfirlýsingu vegna sölunnar að fjárfesting Carlyle og SK Capital sé nauðsynleg til að koma í veg fyrir gjaldþrot.

Hann segir fyrirtækið hafa verið í fararbroddi genameðferðar í meira en áratug, en að fjárhagslegir erfiðleikar kalli á nýja stefnu og sterkan samstarfsaðila.

Sem hluti af kaupsamningnum hafa fjárfestarnir skuldbundið sig til að greiða hlutahöfum Bluebird Bio allt að 475 milljónir danskra króna til viðbótar ef fyrirtækinu tekst að auka árstekjur sínar í 4,3 milljarða danskra króna eða um 83,8 milljarða íslenskra króna.