Kjaraviðræður milli stjórnenda Volkswagen og verkalýðsfélags starfsmanna hófust í gær og stóðu langt fram á mánudagskvöld. Viðræður báru engan árangur og halda nú áfram í dag.

Báðar hliðar deila nú um hvernig eigi að halda áfram með hagræðingarráðstafanir sem þýski bílaframleiðandinn segir að séu nauðsynlegar til að tryggja framtíð fyrirtækisins.

Volkswagen segir að grípa þurfi til launalækkana á meðan fulltrúar starfsmanna hafa útilokað allar tillögur sem fela í sér lokun verksmiðja, fjöldauppsagnir eða launalækkanir. Verkalýðsfélagið, IG Metall, segist vilja ná samkomulagi fyrir jól.

Rúmlega 100 þúsund starfsmenn Volkswagen í Þýskalandi hafa farið í tveggja daga verkfall nokkrum sinnum á undanförnum vikum.

Volkswagen hefur ekki viljað tjá sig um málið en IG Metall sagði í yfirlýsingu í gær að það ætti eftir að koma í ljós hvort samningar náist fyrir jól eða hvort fleiri verkföll muni halda áfram á nýju ári.