Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefur haldist afar hátt frá því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hóf vaxtalækkunarferli sitt í byrjun október í fyrra. Samhliða þessu hækkaði vísitala neysluverðs um 0,93% á milli mars og apríl og mældist verðbólga á ársgrundvelli 4,2%.

Sé tekið tillit til óvissuálags er markaðurinn að verðleggja verðbólgu í kringum 3,5% til 4% næstu árin.Þrátt fyrir að verðbólguálagið gæti verið að einhverju leyti tengt framboði og eftirspurn á markaði er þetta einn af þeim þáttum sem peningastefnunefndin mun horfa til við vaxtaákvörðun síðar í mánuðinum .

Að mati Konráðs S. Guðjónssonar, hagfræðings og fyrrum efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar, er verðbólguálagið á skuldabréfamarkaði að einhverju leyti að endurspegla áhættuálag og mögulega einhverjar breytingar á markaðinum sem hafa ekki endilega mikið að gera með verðbólguvæntingar.

„Þetta er eins og ævinlega, sambland af mismunandi þáttum,“ segir Konráð. „En það eru samt vonbrigði fyrir peningastefnunefnd að verðbólguálag hefur ekki lækkað á síðustu mánuðum. Ein augljós skýring er að undirliggjandi takturinn í verðbólgunni er ekki að benda til þess með sannfærandi hætti að hún sé að fara í verðbólgumarkmið. Þessar mánaðarhækkanir eru enn þá talsverðar. Við þetta má bæta að launahækkanirnar hafa verið meiri en reiknað var með. Það voru almennar hækkanir sem voru um rúm 3% og svo taxtahækkanir sem voru töluvert hærri. Til að gera langa sögu stutta virðast allir hafa fengið taxtahækkanir í prósentum miðað við launavísutölu og ofan á það er að koma viðbótarhækkun vegna þess að launavísitalan hefur hækkað svo mikið. Þannig að þetta eru talsverðar launahækkanir,“ segir Konráð.

Að hans mati hefur markaðurinn einnig áttað sig á því að aðhaldið sé í raun og veru að minnka til skamms tíma í fjármálaáætlun nýrrar ríkisstjórnar .

Konráð telur líklegt að vaxtalækkun bankans verði minni en búist var við fyrir nokkrum vikum síðan.

Verðbólguvæntingar markaðsaðila og fleiri hagtölur sem koma síðar í mánuðinum munu þó hafa áhrif á ákvörðunartökuna.

„Ég held við séum að fara að sjá litla vaxtalækkun, því miður, og eins og þetta lítur út núna er ekki hægt að útiloka að nefndin haldi vöxtum óbreyttum. Sem eru í raun vonbrigði því eins og þetta leit út í vetur, þegar verðbólga var að hjaðna og væntingar að minnka, stefndi í að vextir gætu orðið nálægt 7% núna í maí. Það hefur ekki alveg gengið eftir. Þetta gengur ansi treglega. Svo er alltaf spurning hversu mikla þolinmæði peningastefnunefndin hefur fyrir því. Þau eru ekki á vaxtamarkmiði heldur á ströngu 2,5% verðbólgumarkmiði. Af þeim sökum tel ég líklegt að óbreyttir vextir séu eitthvað sem muni koma til tals.“

Spurður um hvort stjórnvöld geti gert eitthvað til að aðstoða Seðlabankann segir Konráð hið augljósa auðvitað að auka aðhald í fjármálaáætlun.

„Það er meira aðhald á seinni árum fjármálaáætlunar en það væri mögulega betra að færa það framar og hafa þéttari taum á ríkisútgjöldum árið 2026. Það er ekki mjög mikill útgjaldavöxtur en hann er nægur til þess að hagsveifluleiðrétt aðhald sé í raun ekki neitt á næsta ári. Í stóra samhenginu mun það ekki ráða för um hvort vextir verði 5 eða 7 prósent eftir ár en þetta hjálpar allt.“

Konráð segir að aukið aðhald væri líklegast til að hjálpa til við verðbólguvæntingar.

„Þetta er auðvitað svo væntingardrifið þannig að það má auðvitað ekki vanmeta það. Á sama tíma hefur maður áhyggjur af því að launaþróun samræmist í raun ekki verðbólgumarkmiðinu. Þó að kjarasamningar hafi verið sögulega séð hófsamir þá er það bara ekki nóg eftir allt sem á undan hefur gengið. Hvað er hægt að leysa í því þegar kjarasamningar eru í gildi í þrjú ár til viðbótar? Nema bara að við greiðum fyrir þær launahækkanir með hærri verðbólgu en við viljum og hærra vaxtastigi, eins og við höfum alltaf gert,“ segir Konráð að lokum.