Átakið Á allra vörum, til stuðnings Kvennaathvarfinu, var hrint af stað í síðustu viku og hafa forsvarskonur átaksins þegar gert bakhjarlasamning við Vörð. Í tilkynningu segir að átakið muni standa yfir til 5. apríl.
Vörður kynnti á dögunum nýja vernd sem er ætlað að veita neyðaraðstoð, í formi fjárhagslegra bóta, fyrir þolendur ofbeldis í nánum samböndum í von um að gera þeim kleift að breyta aðstæðum sínum.
„Það er okkur sannur heiður að leggja þessu öfluga átaki lið, enda vandfundið verðugra verkefni”, segir Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, forstjóri Varðar.
Verndin var mótuð með faglegri ráðgjöf Kvennaathvarfsins og er nú hluti af öllum heimilistryggingum Varðar.
„Við erum í skýjunum með samkomulagið enda styður það undir átakið og gerir okkur kleift að koma skilaboðunum okkar á framfæri,“ segir Elísabet Sveinsdóttir, ein forsvarskvenna Á allra vörum.