Hilmar Sigurðsson, framkvæmdastjóri veitingastaðarins Bryggjunnar í Grindavík, vinnur nú hörðum höndum að því að tryggja bæði starfsfólki sínu laun næstu þrjá mánuði sem og framtíð fyrirtækisins. Hann segir að Bryggjan muni ekki grípa til þeirra örþrifaráða að segja upp starfsfólki án uppsagnarfrests eins og náttúruhamfaralögin kveða á um.

Þegar Viðskiptablaðið náði tali á Hilmar var hann staddur í röð við Krýsuvíkurveg á leið til Grindavíkur til að meta stöðuna á húsnæði Bryggjunnar. Erfiðlega hefur þó gengið fyrir marga að fá leyfi til að fara í bæinn og þurfti meðal annars annar bílstjóri að snúa við en hans fyrirtæki er staðsett við sprunguna og því ekki hægt að hleypa honum inn.

Hilmar Sigurðsson, framkvæmdastjóri veitingastaðarins Bryggjunnar í Grindavík, vinnur nú hörðum höndum að því að tryggja bæði starfsfólki sínu laun næstu þrjá mánuði sem og framtíð fyrirtækisins. Hann segir að Bryggjan muni ekki grípa til þeirra örþrifaráða að segja upp starfsfólki án uppsagnarfrests eins og náttúruhamfaralögin kveða á um.

Þegar Viðskiptablaðið náði tali á Hilmar var hann staddur í röð við Krýsuvíkurveg á leið til Grindavíkur til að meta stöðuna á húsnæði Bryggjunnar. Erfiðlega hefur þó gengið fyrir marga að fá leyfi til að fara í bæinn og þurfti meðal annars annar bílstjóri að snúa við en hans fyrirtæki er staðsett við sprunguna og því ekki hægt að hleypa honum inn.

„Menn eru bara pínu tómir og eru að reyna að átta sig á því hvað gerist næst. Við erum náttúrulega búin að vera í frábærum rekstri allt þetta ár. Það hefur verið mikil aukning í veltu og við vorum farin að sjá bjarta tíma framundan eftir Covid, en þetta er bara eins og að labba á vegg,“ segir Hilmar.

Hann segir að Grindvíkingar hafi vissulega notið góðs af þeim eldgosum sem komu á undan og að ferðaþjónustan í bænum hafi stækkað til muna samhliða velgengni Bláa lónsins. Þegar Bláa lónið lokaði þá hélt Hilmar að reksturinn myndi einungis sjá fram á tímabundinn samdrátt.

„Það er alltaf verið að tala um sjávarútveginn í Grindavík, en ferðaþjónustan í bænum er ótrúlega stór ef þú tekur Bláa lónið með og það eru margir í bænum sem vinna við þetta og það hefur verið mjög öflug sókn á þessu ári.“

Mikil óvissa ríkir nú í Grindavík þar sem íbúar vita ekki hvort svæðið verði á endanum skilgreint sem hættusvæði til lengri tíma. Hilmar segir að íbúar hafi einnig fengið þau skilaboð að Náttúruhamfaratryggingar bæti aðeins beint tjón en ekki þá sem verða fyrir óbeinu tjóni.

„En það á örugglega eftir að ræða þetta fram og til baka.“

Hilmar segist aftur á móti mjög ánægður með þann stuðning sem íbúar hafi fengið og hafa kveðjurnar komið víða að. „Við erum að fá töluvert af baráttukveðjum frá Bandaríkjunum og Evrópu frá kúnnum sem hafa komið á bryggjuna og eru að lýsa yfir stuðningi og manni þykir rosalega vænt um það.“