Samkvæmt opinberum tölum dróst vöruútflutningur frá Kína saman um 14,5% í júlí miðað við sama tímabil í fyrra. Innflutningur á vörum til Kína dróst einnig saman um 12,4%.
Kínversk stjórnvöld höfðu vonast eftir betri vöruviðskiptatölum en minni eftirspurn á heimsvísu er farin að hafa gríðarleg áhrif á næststærsta hagkerfi í heimi. Tölurnar benda einnig til þess að kínverski efnahagurinn muni ekki vaxa jafn mikið og búist var við.
Hækkandi framfærslukostnaður og dýrari lán víðs vegar um heiminn hafa dregið úr eftirspurn á kínverskum vörum og eru þarlend stjórnvöld nú undir enn meira álagi að koma efnahagi landsins til bjargar.
Eftir að vöruviðskiptatölurnar voru birtar lækkaði Shanghai vísitalan um 0,2% og Hang Seng í Hong Kong um 1,9%.
Eftirspurn innan Kína eftir vörum hefur einnig verið mjög lítil en efnahagsumsvif voru í raun kæfð í ljósi einhverra ströngustu sóttvarnarreglna sem sáust í heiminum. Útivistarbann var til að mynda sett á í fjármálahöfuðborginni Shanghai í tvo heila mánuði frá mars 2022.