Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru fluttar út vörur fyrir 86,6 milljarða króna í desember 2024 og inn fyrir 133,2 milljarða. Vöruviðskiptin í desember voru því óhagstæð um 46,7 milljarða króna.

Til samanburðar voru vöruviðskiptin óhagstæð um 28,1 milljarð króna í desember 2023 á gengi hvors árs fyrir sig. Vöruskiptajöfnuðurinn í desember 2024 var því 18,6 milljörðum króna óhagstæðari en á sama tíma fyrir ári.

Í greiningu segi jafnframt að vöruskiptajöfnuður síðustu tólf mánuði hafi verið óhagstæður um 397,6 milljarða króna sem er 29,3 milljörðum króna óhagstæðari jöfnuður en á tólf mánaða tímabili ári fyrr.

Verðmæti vöruútflutnings í desember var þá 13,7 milljörðum króna meira, eða 19% meiri, en í desember 2023, fór úr 72,9 milljörðum króna í 86,6 milljarða. Iðnaðarvörur voru 54% alls vöruútflutnings og jókst verðmæti þeirra um 3% samanborið við tólf mánaða tímabil ári fyrr.

Sjávarafurðir voru 36% alls vöruútflutnings og dróst verðmæti þeirra saman um 2% í samanburði við tólf mánaða tímabil ári fyrr.