Eftirspurn eftir vinnuafli á Íslandi var í hæstu hæðum þegar heimsfaraldrinum lauk samhliða 3% atvinnuleysi og launahækkunum.
Samkvæmt Hagsjá Landsbankans voru launahækkanir bæði vegna ríflegra kjarasamningsbundinna hækkana en einnig launaskriðs. Launavísitalan hækkaði um 8,3% árið 2022 og um 9,8% á síðasta ári.
Vaxtahækkunarferli Seðlabanka Íslands hefur að mati greiningardeildar Landsbankans ekki enn tekist að draga ægilega úr spennu á íslenskum vinnumarkaði.
En með auknum slaka á vinnumarkaði minnkar eftirspurn eftir vinnuafli, samningsstaða launafólks versnar og þannig minnka líkurnar á óhóflegum launahækkunum sem kynda undir þenslu í hagkerfinu.
„Þótt vextir hafi borið árangur víða í hagkerfinu, hægt á íbúðaverðshækkunum og dregið úr einkaneyslu, hefur ekki enn tekist að draga nægilega úr spennu á vinnumarkaði,“ segir í Hagsjá Landsbankans.
Máli sínu til stuðnings bendir Landsbankinn á að á fyrsta ársfjórðungi þessa árs sögðust stjórnendur 63% fyrirtækja að þeir teldu nægt framboð af starfsfólki en 37% töldu skorta starfsfólk.
„Þótt hlutfall þeirra stjórnenda sem telja vanta starfsfólk sé lægra en það var rétt eftir faraldurinn eru hlutföllin nú svipuð og þau voru á árunum 2017 og 2018 þegar ferðaþjónustan var í örum vexti. Eftirspurn eftir starfsfólki er mest í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð þar sem 47% fyrirtækja vilja fjölga starfsfólki. Eftirspurnin er einnig þó nokkur í greinum tengdum ferðaþjónustu, verslun og iðnaði.“
Í hagspá Landsbankans til ársins 2026 er því spáð að laun hækki þónokkuð minna næstu ár en á síðustu tveimur árum, um 6,6% á þessu ári, 6,1% á næsta ári og um 5,5% árið 2026.
„Sé miðað við verðbólguspá okkar má gera ráð fyrir að kaupmáttur aukist um 0,6% á þessu ári, 1,6% á því næsta og 2% árið 2026. Kaupmáttaraukningin er þó nokkuð undir meðalaukningu síðustu ára en eykst þó eftir því sem líður á spátímann og verðbólga hjaðnar.“