Gengi hlutabréfa streymisveitunnar Netflix féll um 11% fyrr í vikunni í kjölfar fregna um að hægari framleiðsla á kvikmyndum og sjónvarpsþáttaröðum hafi orðið til þess að nýir áskrifendur reyndust færri á fyrsta ársfjórðungi en áætlanir stóðu til.
Á fyrsta ársfjórðungi bættust við tæplega 4 milljónir nýrra áskrifenda, sem var undir væntingum, og reiknar Netflix með að aðeins 1 milljón nýrra áskrifenda bætist við á öðrum ársfjórðungi.
Forsvarmenn Netflix reikna þó með mun hraðari fjölgun í hópi nýrra áskrifenda á seinni helmingi þessa árs þegar nýjar seríur af vinsælum þáttaröðum á borð við You, Money Heist og The Witcher verða gefnar út. Auk þess mun Netflix gefa út hasarmyndina Red Notice á tímabilinu, sem streymisveitan er bjartsýn á að muni laða að nýja áskrifendur.