VR hefur undirritað kjarasamning við Samtök atvinnulífsins til fjögurra ára samkvæmt fréttatilkynningu sem send var á fjölmiðla rétt í þessu.

Ekkert kemur fram um efnisatriði samningsins annað en samningstíminn, en heimildir Viðskiptablaðsins herma að hann sé samhljóða þeim samningum sem þegar hafa verið gerðir við hina svokölluðu Breiðfylkingu og Fagfélögin.

Með samningunum við VR hafa Samtök atvinnulífsins nú gengið frá langtímasamningum við öll stærri félög á almennum vinnumarkaði og fulltrúa meginþorra almenns launafólks.

„Það er afar ánægjulegt að semja um stöðugleika og ná sátt við eitt stærsta stéttarfélag á almennum vinnumarkaði í dag. Það skapar óneitanlega skriðþunga fyrir það sem á eftir kemur, þar sem við sem þjóð stöndum frammi fyrir raunverulegu tækifæri til þess að ná efnahagslegum stöðugleika. Við sjáum samtakamáttinn þegar fjölmörg fyrirtæki stíga fram og sýna stuðning við markmið samninganna í verki og þegar ríki og sveitarfélög skuldbinda sig til þess að draga úr gjaldskrárhækkunum,“ er haft eftir Sigríði Margréti Oddsdóttur, framkvæmdastjóri SA, í tilkynningunni.