Stjórn VR hefur ákveðið að hætta viðskiptum við Íslandsbanka vegna sölumeðferðar bankans á eignarhlut í sjálfum sér.
Stéttarfélagið er ósátt með viðbrögð bankans og forsvarsmanna í kjölfar þess að fjármálaeftirlit seðlabankans sektaði Íslandsbanka vegna brota í söluferlinu. Voru viðbrögðin ófullnægjandi að mati stjórnar VR.
VR hótaði því að hætta viðskiptum við bankann í lok júní og hefur Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR sagt að salan væri áfellisdómur.
Leita eftir tilboðum í viðskipti félagsins
„Eins og fram kom í yfirlýsingu stjórnar VR frá 29. júní síðastliðinn telur félagið brot Íslandsbanka við sölumeðferð á eignarhlut ríkisins í bankanum með öllu óásættanleg. VR kallaði eftir því að stjórn bankans og það starfsfólk sem ábyrgð ber á lögbrotum axli þá ábyrgð. Viðbrögð Íslandsbanka og svör forsvarsmanna hans við kröfum félagsins eru að mati stjórnar VR ófullnægjandi,“ segir í tilkynningu VR.
Stéttarfélagið leitar nú tilboða í viðskipti félagsins og þjónustu hjá öðrum fjármálafyrirtækjum.