Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir stéttarfélagið undirbúa stofnun leigufélags sem gæti boðið fólki leiguhúsnæði á lægra verði en gengur og gerist á almennum markaði.

Ragnar Þór var gestur á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Kom þar til umræðu ólgan í verkalýðshreyfingunni, kaupmáttur og staðan á íbúðamarkaði.

„Við í VR erum á lokametrunum með undirbúning á nýju húsnæðisleigumódeli. Okkar hugmyndafræði snýst um það að skera út græðgina. Við getum komið með þolinmótt langtímafjármagn [úr sjóðum VR] með hóflegri ávöxtunarkröfu og síðan reiknum við út leiguverð út frá okkar ávöxtunarkröfu en ekki út frá því sem markaðurinn gefur hæst,“ sagði Ragnar Þór.

Tók hann sem dæmi að ávöxtunarkrafa á lengstu ríkistryggðu skuldabréfunum er nú um 1,8% og að leigufélag VR myndi gera svipaða kröfu á 30% eigið fé gegn 70% eigin fé lífeyrissjóða. Önnur leigufélög á markaðnum væru með 13-17% ávöxtunarkröfu.

„Við komumst að því að við getum verið um það bil 15% lægri í markaðsleigu bara með því að kaupa íbúðir á markaði. [...] En ef við gætum byggt sjálf fyrir svona 10% lægra fermetraverð en er á markaði [með samningum við verktaka og sveitarfélög], þá gætum við hugsanlega boðið upp á íbúðir upp undir 30% lægra verði heldur en markaðurinn er að bjóða upp á í dag. Þetta sýnir í rauninni hvað það er búið að græðgisvæða húsnæðismarkaðinn,“ sagði Ragnar Þór.

Búið er að fara með leigumódelið í áreiðanleikakönnun hjá Deloitte. Þá er einnig búið að kynna það fyrir fjárfestum – lífeyrissjóðum og bönkum.