Afkoma Vinnslustöðvarinnar í fyrra var sú besta í sögu fyrirtækisins samkvæmt samstæðunni en Vinnslustöðin gerði grein fyrir afkomunni á aðalfundi sínum fyrir helgi. Vinnslustöðin gerir upp í evrum. Velta samstæðu hennar nam jafnvirði um 35 milljarða króna á árinu 2023.
Samkvæmt tilkynningu á vef Vinnslustöðvarinnar má rekja betri afkomu að miklu leyti til uppsjávarveiðanna.
„Loðnuvertíðin í fyrra var sú gjöfulasta í verðmætum talið frá upphafi vega og verð á mjöli og lýsi var hátt á mörkuðum allt árið 2023. Afkoman á fyrstu mánuðum liðins rekstrarárs lofaði því góðu um árið allt þegar það yrði gert upp, sem og kom á daginn,“ segir á vef VSV.
Á vef félagsins segir að metvertíð loðnu í fyrra fylgi loðnuleysisár nú með þeim afleiðingum sem slíkt hefur fyrir sjávarútveginn, byggðarlögin þar sem uppsjávarveiðar eru stoðir í atvinnulífi og fyrir sjálft þjóðarbúið.
„Loðnubresturinn nú er til vitnis um hve sveiflukennd atvinnugrein sjávarútvegur er og mikilli óvissu háður um skilyrði og takmörk sem móðir náttúra setur starfsemi hans á hverjum tíma.“
Aðalfundurinn samþykkti að hluthafar fái greiddar jafnvirði um 900 milljóna króna í arð vegna ársins 2023 en stjórn félagsins er jafnframt heimilað að lækka þá fjárhæð eða hætta við að greiða út arðinn ef aðstæður breytast þegar líður á árið.