Þýski bílaframleiðandinn Volkswagen hyggst loka að minnsta kosti þremur verksmiðjum í Þýskalandi, segja upp þúsundum starfsmönnum og draga úr launakostnaði um 10%.

Forsvarsmenn stærsta verkalýðsfélags meðal starfsmanna Volkswagen tilkynntu um þetta í morgun. Volkswagen segist ekki ætla að tjá sig um vangaveltur um trúnaðarsamtal við fulltrúa verkalýðsfélaganna en bætti þó við að félagið stæði á krítískum tímapunkti.

Ákvörðunin myndi marka fyrstu lokun verksmiðju í Þýskalandi í 87 ára sögu Volkswagen, að því er segir í frétt Financial Times. Bílaframleiðandinn rekur í dag 10 verksmiðjur í Þýskaland en alls starfa um 300 þúsund manns fyrir félagið þar í landi.

Volkswagen hefur varað við því að þörf sé á róttækum aðgerðum vegna aukinnar samkeppni frá Kína, krefjandi aðstæðum á öðrum stórum mörkuðum auk þess að kostnaðarsamt sé að færa framleiðsluna úr bensín- og díselbílum yfir í rafbíla.

Frá upplýsingafundi verkalýðsráðs starfsmanna bílaframleiðandans við helstu verksmiðju Volkswagen í Wolfsburg í morgun.
© EPA (EPA)

Bílaframleiðandinn gaf nýlega út sína aðra neikvæðu afkomuviðvörun á innan við þremur mánuðum og bar þar fyrir sig krefjandi markaðsaðstæðum.