Volkswagen hefur staðfest 48 milljóna dala fjárfestingu í kanadíska litíumfyrirtækinu Patriot Battery Metals. Með fjárfestingunni mun þýski bílaframleiðandinn eignast 9,9% hlut í fyrirtækinu.
Samningurinn felur í sér bindandi samning um að útvega Volkswagen 100 þúsund tonn af spodumene-þykkni á hverju ári í 10 ár um leið og framleiðsla hefst.
Volkswagen bætti við að PowerCo, rafhlöðufyrirtæki Volkswagen í Evrópu, og Patriot Battery Metals muni kanna tækifæri fyrir hugsanlegt samstarf og frekari þróun á litíumverkefninu í Quebec.
Bílaframleiðandinn hefur undanfarið þurft að takast á við ýmsar áskoranir á borð við verkföll og utanaðkomandi samkeppni frá Kína. Volkswagen þurfti þá meðal annars að selja verksmiðju sína í Xinjiang í síðasta mánuði og eru líkur á að nokkrar verksmiðjur í Þýskalandi þurfi að loka líka.