Hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum hafa hækkað töluvert í dag eftir að Donald Trump forseti frestaði áformum um 50 prósenta tolla á evrópskan innflutning.
Dow Jones er upp 1,82 %, S&P 500 hefur hækkað um 2,05 % og Nasdaq um 2,47 %. Lokað var í kauphöllum í gær vegna Minningardags fallinna hermanna, sem er almennur frídagur í Bandaríkjunum.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandið tilkynnti í gær að það væri tilbúið að hraða viðræðum við Bandaríkin um tollamál. Kom tilkynningin í kjölfar símtals um helgina milli Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnarinnar.
„Þau samþykktu bæði að hraða viðræðunum og vera í nánu sambandi,“ sagði Paula Pinho, talskona framkvæmdastjórnarinnar, við fréttamenn á mánudag.
Tilkynningin markar endurkomu vinalegri samskipta milli aðila eftir að Trump hafði í síðustu viku skammað ESB og hótað að leggja 50% tolla á evrópskan innflutning frá og með 1. júní. Trump samþykkti að fresta innleiðingu tollanna til 9. júlí í eftir símtalið við von der Leyen.
Trump lýsti óánægju sinni með hægagang í viðræðum við embættismenn ESB síðastliðinn föstudag í færslu á samfélagsmiðlum. Þar hélt hann því fram að Evrópusamruninn hefði að megintilgangi verið stofnaður til að misnota Bandaríkin í viðskiptum, og að viðræðurnar væru í rauninni strandaðar.