Helstu hlutabréfavísitölur Bandaríkjanna hafa hækkað um 1,8-1,9% og ávöxtunarkrafa tíu ára bandarískra ríkisskuldabréfa hefur lækkað um 14 punkta það sem af er degi. Nýjar hagtölur sýna að atvinnusköpun dróst saman á milli nóvember og desembermánaða.

Samkvæmt nýrri vinnumarkaðsskýrsla fjölgaði störfum í Bandaríkjunum um 223 þúsund talsins í desember samanborið við 256 þúsund í nóvember. Atvinnuleysi lækkaði úr 3,6% í 3,5% á milli mánaða.

Hagfræðingar höfðu spáð því að um 200 þúsund störf hefðu skapast í desember og að atvinnuleysi yrði nær 3,7%.

Greitt tímakaup jókst að jafnaði um 0,3% í desember samanborið við 0,4% hækkun í nóvember. Meðal tímakaup í desember jókst um 4,6% frá sama tíma árið áður samkvæmt árstíðaleiðréttum gögnum samanborið við 4,8% í nóvember. Hagfræðingar áttu von á 5,0% árshækkun.

Andrew Hunter, hagfræðingur Capital Economics, segir við Financial Times, að 223 þúsund ný störf utan landbúnaðar og minna atvinnuleysi geri lítið til að draga úr áhyggjum Seðlabanka Bandaríkjanna um háa kjarnaverðbólgu. Hins vegar gefi skýrslan til kynna að hægjast sé á launahækkunum og að merki séu um að vinnumarkaðurinn muni gefa meira eftir í ár.

Seðlabanki Bandaríkjanna hækkaði stýrivexti í síðasta mánuði um hálfa prósentu og eru þeir nú á bilinu 4,25-4,5%. Næsti fundur peningastefnunefndar bankans er boðaður 31. janúar til 1. febrúar næstkomandi.

Í umfjöllun WSJ segir að margir innan seðlabankans séu farnir að beina sjónum sínum í auknum mæli til vinnumarkaðarins en óljóst sé þó hvernig bankinn muni lesa í skýrsluna.