Fjárfestingafélagið Berkshire Hathaway tapaði 22,8 milljörðum Bandaríkjadala í fyrra, eða sem svarar 3.301 milljarði króna á gengi dagsins í dag. Þetta kemur fram í fjárfestabréfi sem Warren Buffett sendi hluthöfum félagsins í dag.
Berkshire Hathaway (BH) var stærsti hluthafinn í átta bandarískum fyrirtækjum - American Express, Bank of America, Chevron olíufélaginu, Coca-Cola, HP ( Hewlett-Packard), matsfyrirtækinu Moody’s, olíufélaginu Occidental og afþreyingarfélaginu Paramount Global.
Árið 2022 var erfitt á hlutabréfamörkuðum. Að auki hafði veiking Bandaríkjadals áhrif á afkomu BH auk 9,1% verðbólgu.
BH jók handbært fé verulega á fjórða ársfjórðungi frá þeim þriðja og var með 128,6 milljarða dala í handbæru fé í árslok 2022. Það er þó töluvert minna en í árslok 2021, þegar handbært fé nam 146,7 milljörðum dala. Þrátt fyrir erfitt ár er Buffett bjartsýnn á næstu ár og áratugi.
Buffett segir í bréfinu að hann hafi fjárfest í 80 ár en hann verður 93 ára gamall í ágúst. Hann hefur sent fjárfestum BH bréf í yfir 50 ár. Í bréfi sínu í dag ber hann saman hækkun bréfa BH og S&P 500 vísitölunnar og sýnir niðurstöðu hvers árs.
Frá árinu 1965 hafa bréf BH hækkað um 3.787.464%. Á sama tíma hækkaði S&P500 um 24.708%.