WeWork, skrifstofufyrirtækið sem sérhæfir sig í að bjóða upp á opin vinnurými, hefur formlega sótt um greiðsluskjól (e. Chapter 11 bankruptcy) í Bandaríkjunum.

Fyrirtækið var metið á tæplega 47 milljarða dala fyrir rúmum fjórum árum en markaðsvirði WeWork nemur í dag um 50 milljónum dali.

Mikill taprekstur, gegndarlaus stækkun, umdeildir starfshættir og mislukkað frumútboð voru meðal þátta sem leiddu til þess að virði félagsins hefur hríðlækkað undanfarin ár.

Félagið skrifaði undir hundruð langtíma leigusamninga þegar leiguverð var í hæstu hæðum í lok síðasta áratugar. Heimsfaraldurinn kippti algjörlega undan rekstrargrundvelli WeWork. Heildartap félagsins í gegnum tíðina nam tæplega 16 milljörðum dala í lok eftir annan ársfjórðung 2023.

Greiðslustöðvunin kemur til með að hafa áhrif á starfsemi fyrirtækisins í Bandaríkjunum og Kanada. Rými WeWork verða þó áfram opin og starfhæf en fyrirtækið er með um 700 skrifstofuhúsnæði víða um heim.

„Ég er innilega þakklátur fyrir stuðninginn sem við höfum fengið frá hagsmunaaðilum okkar á meðan við vinnum saman að því að styrkja stöðu okkar og flýta fyrir endurskipulagningunni,“ segir David Tolley, forstjóri WeWork, í tilkynningu.

Fyrirtækið var stofnað árið 2010 af Adam Neumann og leigir út skrifstofuhúsnæði þar sem einstaklingar og fyrirtæki geta deilt vinnurými. WeWork var meðal annars þekkt fyrir að bjóða upp á bjór á dælu á skrifstofum sínum sem og litríkar og afslappaðar innréttingar.