Asia News International (ANI), stærsta fréttaveita Indlands, hefur nú höfðað mál gegn Wikipedia og vill meina að vefsíðan hafi birt ærumeiðandi efni gegn henni. Fréttaveitan krefst rúmlega 240 þúsund dala í skaðabætur vegna málsins.

Samkvæmt málssókninni er Wikipedia sakað um að halda því fram að ANI sé ekkert annað en áróðursmiðill fyrir sitjandi ríkisstjórn og að dreifa efni frá falsfréttavefsíðum.

Wikimedia Foundation, sem rekur Wikipedia, segir hins vegar að efni vefsíðunnar sé algjörlega stjórnað af sjálfboðaliðum og að stofnunin hafi því enga stjórn á því hvað birtist þar.

Dómstóll í Delí fyrirskipaði Wikipedia í ágúst að upplýsa uppruna þeirra ærumeiðandi skrifa sem birtust á síðunni sem fjallaði um fréttaveituna. Þá hótaði dómstóllinn meðal annars að loka fyrir síðuna ef stjórnendur fylgdu ekki skipunum.

Síðan þá hefur Wikipedia samþykkt að deila grunnupplýsingum um notendur til dómstólsins en málið, sem er enn í ferli, gæti haft veruleg áhrif á starfsemi Wikipedia í landinu.