Lággjaldaflugfélagið Wizz Air hefur ákveðið að hætta starfsemi í Abú Dabí frá og með 1. september nk. Á vef Euro News segir að félagið muni þess í stað einbeita sér meira að kjarnamörkuðum sínum í Mið- og Austur-Evrópu.
Samkvæmt tilkynningu sem félagið gaf út í dag tengist ákvörðunin bæði rekstrarerfiðleikum og pólitískum óstöðugleika á svæðinu.
Mörg alþjóðleg flugfélög hafa neyðst til að hætta áætlunarferðum sínum til Miðausturlanda vegna stríðsástands undanfarinna ára. Tólf daga stríðið á milli Írans og Ísraels reyndist flugfélögum einnig mikið högg þar sem lokað var á lofthelgi svæðisins.
Zayed-flugvöllurinn í Abú Dabí hefur lengi setið í skugga nágrannaflugvallar síns, Dúbaí, en hann er einn annasamasti flugvöllur í heimi og tók á móti meira en 92 milljónum farþega í fyrra.