Heimsendingarþjónustan Wolt hefur verið starfrækt á Íslandi í næstum eitt og hálft ár en finnska fyrirtækið hóf starfsemi hér á landi þann 8. maí í fyrra. Síðan þá hefur fyrirtækið upplifað stöðugan vöxt og segjast talsmenn Wolt spenntir fyrir framtíðinni.

Elisabeth Stenersen, framkvæmdastjóri Wolt í Noregi og á Íslandi, segir eitt af vandamálum fyrirtækisins vera dvínandi úrval veitingastaða sem geta skráð sig í snjallforritið. Wolt sé til að mynda nú með heimsendingar á Akureyri, Selfossi, Hveragerði og í Reykjanesbæ.

„Við viljum vera jákvætt framlag fyrir fyrirtæki og veitingastaði og við viljum ekki minnka viðskipti þeirra á neinn hátt. Við erum líka ekki að keppa við þá gesti sem fara á veitingastaði, við erum að keppa við fólkið sem situr heima með frosna pizzu.“

Hún segir að fyrirtækið geri sér fulla grein fyrir erfiðu rekstrarumhverfi á Íslandi. RÚV greindi til að mynda nýlega frá því að 75% fleiri veitingastaðir hér á landi hafi orðið gjaldþrota í fyrra en árið 2022.

Þá sé algengt að nýir veitingastaðir í Reykjavík, eins og Amber og Astra á Hverfisgötu, opni í örfáa mánuði áður en þeim er svo lokað aftur.

„Ég er frá Noregi og við erum með svipuð vandamál í veitingageiranum þar. Það er hins vegar alltaf fólk sem er að opna nýja staði og prufa nýja hluti og mér sýnist þróunin vera svipuð hér. Við vonum bara að við getum verið auka tekjulind ofan á það sem veitingastaðirnir fá nú þegar frá þeim viðskiptavinum sem heimsækja þá.“

Jóhann Már Helgason, sem nýlega var ráðinn forstöðumaður viðskiptastýringar hjá Wolt á Íslandi, tekur í sama streng og segir að fyrirtækið bjóði upp á ákveðin þægindi fyrir þá sem kjósi frekar að senda vörur heim.

„Ís er til dæmis frábært dæmi. Margir vilja fá sér bragðaref, en það getur tekið 20 mínútur að keyra í ísbúðina og svo þarf að standa í röð. Þá er frábært að geta fengið ísinn sendan heim, sérstaklega ef þú ert með börnin heima sem eru við það að sofna.“

Elisabeth telur að velgengni Wolt á Íslandi muni auka samkeppnina í framtíðinni og bætir við að veitingastaðir þurfi líka að huga að því að auka upplifun viðskiptavina. Wolt vill til dæmis auka þjónustu sína á sviði matarinnkaupa en það verður þó alltaf fólk sem vill fara í matarverslun og þreifa á ávöxtunum.

„Við erum til staðar af ólíkum ástæðum og við vitum að við megum aldrei hvíla okkur. Samkeppnin gerir okkur kleift að bæta ánægju viðskiptavina okkar og ef við förum að slaka á þá erum við ekki að fara að bæta þá þjónustu.“