Á fundi bæjarráðs Vestmannaeyja fyrir helgi var tekin sú ákvörðun að hefja formlegt samtal við Laugar ehf/Í toppformi ehf. um uppbyggingu og rekstur á World Class-líkamsræktarstöð í Vestmannaeyjum.
Bæjarráð hafði þegar samþykkt beiðni World Class um mögulegar viðræður um rekstur heilsuræktar við sundlaug Vestmannaeyja í janúar á þessu ári.
Björn Leifsson, forstjóri og einn aðaleigenda World Class, hafði þá skrifað bréf til Írisar Róbertsdóttur bæjarstjóra og óskað eftir frekari viðræðum. Hann sagðist hafa áhuga á rekstri heilsuræktar, leigu á sal við sundlaugina ásamt viðbyggingu í framhaldi.
World Class starfrækir í dag 18 heilsuræktarstöðvar víðs vegar um landið, þar af átta við sundlaugar. Viðskiptablaðið fjallaði í fyrra um áform fyrirtækisins að opna sína fyrstu stöð í Garðabæ og vinnur félagið einnig að hönnunarverkefni á nýju baðlóni á Fitjum í Njarðvík.
Björn segir í samtali við Viðskiptablaðið að verkefnið í Vestmannaeyjum sé mjög spennandi og að tímasetningin hafi hentað vel þar sem núverandi leigusamningi verði sagt upp í lok maí.
„Við munum byrja á því að leigja salinn sem er þar nú þegar en hann verður stækkaður um helming og fær svo ný tæki og búnað sem ég er að fá núna til landsins.“
Hann býst við að sá salur verði opnaður í júní og verður þá aðstaða og fyrirkomulag ekkert ósvipað heilsuræktarstöð World Class við sundlaugina á Selfossi.
„Svo byggi ég við og ég býst við að það muni taka um eitt og hálft ár. Þegar það verður opnað þá breytum við gamla salnum í tvo leikfimissali, þannig þetta verður alvöru aðstaða.“