Bæjarráð Vestmannaeyja hefur samþykkt beiðni World Class um ganga til viðræða um rekstur heilsuræktar við sundlaug Vestmannaeyjar. ‏Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs Vestmannaeyja frá því á miðvikudaginn, 15. janúar.

Undir fundarliðnum er birt bréf frá Birni Leifssyni, forstjóra og eins aðaleiganda World Class, til Írisar Róbertsdóttur bæjarstjóra þar sem hann óskar eftir viðræðum við Vestmanaeyjabæ.

„Ég hef áhuga á að fara í samstarf við bæinn um rekstur heilsuræktar, leigu á sal við sundlaugina og viðbyggingu í framhaldi,“ skrifar Björn.

Bæjarráð samþykkti beiðni um viðræður og fól bæjarstjóra, framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs og framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs að ræða við forsvarsmenn World Class um þeirra hugmyndir um rekstur og uppbyggingu heilsuræktar.

World Class starfrækir í dag 18 heilsuræktarstöðvar víðs vegar um landið, þar af átta við sundlaugar. Viðskiptablaðið fjallaði í fyrra um áform fyrirtækisins að opna sína fyrstu stöð í Garðabæ eftir að hafa keypt bygginguna Sjáland við Ránargrund 4 við Vífilsstaðaveg.

World Class vinnur einnig að hönnunarverkefni á Fitjum í Njarðvík þar sem nýtt baðlón verður byggt.