Lággjaldafélagið WOW Air mun hefja flug til og frá Íslandi mánaðarmótin maí-júní næstkomandi og er sala á miðum þegar hafin á vef félagsins, að því er segir í tilkynningu frá félaginu. Tíu fyrstu sætin á hvern áfangastað verða seld á sérstöku kynningarverði á 9.900 kr. með sköttum. Skúli Mogensen, stjórnarformaður og aðaleigandi WOW kynnti fyrirætlanir félagsins á blaðamannafundi sem haldinn var á KEX Hostel í dag.
Fram kom á fundinum að félagið muni nýta Airbus A320 flugvélar og verða sæti fyrir 168 farþega í hverri vél. Rýmra verður um farþega en hefur tíðkast hefur hjá lággjaldaflugfélögum. Félagið hyggst bjóða samkeppnishæft verð á þeim flugleiðum sem flogið verður á.
Leiðarkerfi WOW Air mun í upphafi samanstanda af eftirtöldum áfangastöðum: Kaupmannahöfn í Danmörku, London (Stansted) á Bretlandseyjum, Berlín, Köln og Stuttgart í Þýskalandi, Alicante á Spáni, Basel og Zurich í Sviss, Varsjá og Kraká í Póllandi og Lyon og París í Frakklandi. Flogið verður fjórum sinnum í viku til Kaupmannahafnar (sunnudaga, mánudaga, fimmtudaga og föstudaga) og þrisvar í viku til Lundúna (sunnudaga, miðvikudaga og föstudaga).
Jóna Lovísa Jónsdóttir, prestur og fitnessmeistari opnaði vef WOW Air, www.wowair.is, í dag. Sagði Skúli Mogensen við þetta tækifæri að hann hafi viljað brjóta upp þá venju að fá ráðamenn til slíkra verka. Heldur hafi þeir viljað leita til einhvers sem sýnt hafi dugnað, kjark og þor til að ögra sjálfum sér og viðteknum hugmyndum í senn. Þetta segir hann að muni einnig verða leiðarljós WOW Air. Skúli segist sannfærður um að Íslendingar muni taka félaginu fagnandi og það séu fjölmörg tækifæri til að þjóna Íslendingum jafnt sem erlendum ferðamönnum vel með flugi sem sé ánægjulegt og hagstætt í senn.
Á annað þúsund umsóknir hafa borist um störf hjá fyrirtækinu. Ráðið verður í á milli 50-60 stöður hjá fyrirtækinu auk flugmanna og hefur því verið beint til flugrekstraraðila félagsins, sem verður íslensk-ættaða fyrirtækið Avion Express, að litið verði til þess að ráða íslenska flugmenn eftir því sem kostur er. Wowair ehf. verður í meirihlutaeigu Títan, en aðrir hluthafar eru Baldur Oddur Baldursson og Matthías Imsland. Baldur verður framkvæmdastjóri félagsins.