Ísraelski fjölmiðillinn Haaretz segir að íslenska flugfélagið Wow air hyggist hefja á ný flug til landsins næsta sumar. Svanhvít Friðriksdóttir upplýsingafulltrúi félagsins staðfesti að þetta væri í skoðun en sagði að ekki hefði verið tekin ákvörðun enn.

Í fréttinni er vísað í að þegar félagið hóf áætlunarflug til landsins í september í fyrra hafi það fengið 750 þúsund evra styrk, eða sem samsvarar 101 milljón íslenskra króna á núverandi gengi, enda ekki áður flogið milli landanna tveggja.

Það hafi þó verið gagnrýnt að þjónustan hafi einungis staðið yfir í eitt ár, en Svanhvít segir að engin skylda hvíli á félaginu að halda áfram þjónustu vegna styrksins. Viðskiptablaðið sagði frá því fyrst í júní síðastliðnum að félagið væri að skoða að hætta við flugið, sem fékkst staðfest í sama fjölmiðli og segir frá því að flugið hefjist að ný nú.

Fram og til baka frá N-Ameríku frá 40 til 80 þúsund krónur

Í fréttinni er sagt að þegar flugið milli landanna hafi verið tilkynnt hafi verðmiðinn á flugi milli Ísrael og Bandaríkjanna, fram og til baka, verið sagður um 320 dalir, en í sumum tilvikum hafi verðið hins vegar verið á milli 500 til 700 dali.

Það er að í stað um 41 þúsund króna á núverandi gengi hafi verðmiðinn kostað allt að 81 þúsund króna. Tíu áfangastaðir í Norður Ameríku voru í boði fyrir farþega frá Ísrael. Þegar félagið tilkynnti um það í júlí síðastliðnum að flugi til Tel Aviv væri hætt var það orðað þannig að hægt væri að skilja að um tímabundna ráðstöfun væri að ræða.

Hefði ákvörðunin verið tekin vegna stækkunar félagsins inn á fleiri markaði þar sem væri meiri eftirspurn yfir vetrarmánuðina.