Fjárfestar sem fjármögnuðu yfirtöku Elon Musk á Twitter, nú X, hafa þurft að bókfæra töluvert tap á síðustu árum vegna viðskiptanna.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í fyrra hefur fjárfestingabönkum sem lánuðu Musk fyrir kaupunum gengið illa að losa sig við lánin úr bókum sínum.
Bankar eins og Morgan Stanley og Barclays sitja enn á um 13 milljörðum dala af skuldum en vonir stóðu til að setja skuldabréfin í vafning og selja fjárfestum skömmu eftir yfirtökuna.
Áhugi skuldabréfafjárfesta á skuldabréfunum hefur þó verið enginn þar sem X skilar litlum ekki hagnaði og Musk keypti miðilinn vel yfir markaðsvirði hafa skuldabréfin verið sett í ruslflokk.
Samkvæmt Financial Times gerði Musk þó samning við einstaka fjárfesta um að þeir myndu eignast hluti í gervigreindarfyrirtækinu xAI gegn því að lána honum fyrir 44 milljarða yfirtökunni á Twitter.
Musk stofnaði xAI formlega í fyrra til að fara í samkeppni við gervigreindarfyrirtæki eins og OpenAI og Anthropic.
Fyrirtækið er að ljúka við 5 milljarða dala hlutafjáraukningu en samkvæmt heimildum FT er virði félagsins í hlutafjáraukningunni um 50 milljarðar dala, sem er tvöföldun frá virði félagsins í síðustu fjármögnunarlotu í maímánuði.
Fjárfestarnir sem eru að hagnast á verðhækkun xAI sem nær að vega upp á móti óinnleysta tapinu tengt yfirtökunni eru meðal annars: Larry Ellison stofnandi Oracle, sádiarabíski prinsinn Alwaleed bin Talal, stofnandi Twitter Jack Dorsey, og fjárfestingarfyrirtækin Sequoia Capital, Fidelity og Andreessen Horowitz.
Samkvæmt FT hafa fjárfestarnir sem fjármögnuðu kaupin réttlætt óinnleysta tapið með því að segjast vera í raun að veðja á Musk og það muni skila sér til lengdar að vera hluti af hans „innra neti“.
Fimm milljarða dala hlutafjárútboð vikunnar til að mynda lokað og mega einungis núverandi hluthafar taka þátt.
„Það eru fáir frasar í tækniheiminum sem standast tímans tönn,“ segir einn fjárfestir í fyrirtækjum Musk við FT. „Aldrei veðja gegn Elon er einn þeirra.“
Meta X á 9,4 milljarða dali
Eftir síðustu fjármögnunarlotu hefur xAI sótt um 11 milljarða dali á árinu sem duga til að fullfjármagna gervigreindarlíkan og ofurtölvu félagsins.
xAI sótti 6 milljarða dali í maí sem var fyrsta stóra fjármögnunarlota félagsins en margir af hlutabréfaeigendum í X, m.a. Andreessen Horowitz, Sequoia Capital, prinsinn Alwaleed og Fidelity, tóku þar þátt til að auka hlut sinn í gervigreindarfyrirtækinu.
Samkvæmt FT hefur ör vöxtur xAI reynst fjárfestum í Twitter-yfirtökunni vel en búast má við því að hlutur þeirra í gervigreindarfyrirtækinu muni halda áfram að vaxa.
Musk sótti 7,1 milljarð frá fjárfestum til að kaupa Twitter en bankar lánuðu honum fyrir afganginum á móti hlutabréfum í Tesla.
Virði samfélagsmiðilsins X hefur hrunið frá því að Musk gekk frá kaupunum en auglýsendur hafa verið að yfirgefa miðilinn vegna áhyggna af efninu sem þar birtist.
Fidelity er eitt af fáum fyrirtækjum sem opinberar verðmæti hlutar síns í X, en samkvæmt síðasta uppgjöri hefur virði X á bókum þess rýrnað um 80 prósent.
Núverandi virði X í bókum Fidelity er 9,4 milljarðar dala en sem fyrr segir keypti Musk samfélagsmiðilinn á 44 milljarða.