Íslenska fjártæknifyrirtækið Yay, sem á og rekur meðal annars Yay-gjafakortatækni, hefur gert samstarfssamning við kanadísku kortaþjónustuna og fjármálatæknifyrirtækið Everyday People Financial Inc. Everyday People mun, í gegnum nýstofnað dótturfélag, njóta einkaréttar á því að dreifa Yay-gjafakortinu í kerfi Yay í Kanada.
„Þetta er okkur mikilvægt samstarf þar sem við bjóðum nú tækni okkar á næstum 40 milljóna manna markaði“, segir Ari Steinarsson, framkvæmdastjóri Yay, í tilkynningu.
„Við höfum unnið að stækkuninni síðustu mánuði og það er okkur ánægja að hefja leikinn á Kanadamarkaði með Everyday People. EP er framsækið fyrirtæki með áratugareynslu af fjármálaþjónustu og með sterk tengsl innan atvinnugreinarinnar.“
Everyday People er kortaumsjónarfyrirtæki og tæknivettvangur þess styður við kerfi á sviði lánafjármögnunar og fyrirframgreiddra korta. Gjafakortatækni Yay og vörumerkjasamstæða EP koma til með að bjóða upp á einstaka þjónustu á Kanadamarkaði.
„Samspil einstakrar tækni Yay og verkvangs okkar mun efla kerfið til muna,“ er haft eftir Barret Reykdal, forstjóra og framkvæmdastjóra Everyday People. „Kanadíski gjafakortamarkaðurinn veltir á milli 7-8 milljarðar kanadískra dala árlega og sífellt fleiri Kanadabúar velja frekar að kaupa gjafakort í snjallforritum. Sem fjármálatæknifyrirtæki erum við spennt fyrir því að bjóða þessa vöru í Kanada.“
Kerfið er í þróun og ætlunin er að hleypa því af stokkunum í Kanada síðar á þessu ári.