Skiptum á þrotabúi Héðins veitinga ehf. er lokið og námu lýstar kröfur í búið um 105,5 milljónir króna.

Sam­kvæmt Lög­birtinga­blaðinu greiddust 350 þúsund króna bús­kröfur að fullu og fengust 3,2 milljónir upp í for­gangs­kröfur eða um 8,17% af sam­þykktum for­gangs­kröfum.

Héðinn veitingar ehf. hélt utan um reksturinn á Héðinn Kitchen & Bar að Selja­vegi 2 en fé­lagið var úr­skurðað gjald­þrota af Héraðs­dómi Reykja­víkur í árs­byrjun 2023.

Skráður eig­andi var Karl Viggó Vig­fús­son en hann stofnaði staðinn með æsku­vini sínum Elíasi Guð­munds­syni árið 2021.

Í sam­tali viðmbl.is, skömmu eftir úr­skurð héraðs­dóms í fyrra, sagði Viggó að nýtt fé­lag væri komið á bak við veitinga­reksturinn og staðurinn myndi halda á­fram rekstri í ó­breyttri mynd.

Líkt og fjöldi annarra veitinga­staða fór heims­far­aldur Co­vid-19 illa með reksturinn en í kjöl­farið fylgdu verð­hækkanir allra að­fanga auk hækkandi launa­kostnaðar.

Fé­lagið LEV102 ehf., sem tók við rekstri Héðins Kitchen & Bar, var síðan úr­skurðað gjald­þrota hjá Héraðs­dómi Reykja­víkur þann 10. janúar í ár.

Þungur róður veitingamanna

Elías Guð­munds­son, var eig­andi LEV102, sagði í sam­tali við mbl.is að helstu út­skýringar fyrir gjald­þrotinu væru launa­kostnaður, hækkandi verð á að­föngum og erfitt rekstrar­um­hverfi til að standa í veitinga­rekstri.

Aðal­geir Ás­valds­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka fyrir­tækja á veitinga­markaði (SVEIT), segir að fleiri veitinga­hús hafi orðið gjald­þrota á síðasta ári en á tímum kórónu­veirufar­aldursins.

„Við höfum þungar á­hyggjur af gjald­þrotum í greininni og róðurinn er orðinn mjög þungur,“ sagði Aðal­geir í sam­tali við mbl.is