Ríkisútvarpið ohf. tapaði 121 milljón króna á fyrri helmingi ársins, samanborið við 109 milljóna tap á sama tíma í fyrra. Í fundargerð stjórnar RÚV segir að rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði hafi þó batnað á milli ára.
Eignir RÚV-samstæðunnar námu 9.735 milljónum króna í lok júní og eigið fé var 1.683 milljónir. Eiginfjárhlutfallið stóð því í 17,3% en til samanburðar var það í 20,1% í árslok 2022. Eiginfjárstaða RÚV hefur versnað árlega frá árinu 2018.
Í lok síðasta árs námu langtímaskuldir RÚV 3,7 milljörðum króna, þar af voru skuldir með 3,5% verðtryggðum vöxtum nærri 3,5 milljarðar króna. „Skuldir RÚV hafa um árabil verið háar, m.a. vegna uppgjörs á eldri lífeyrisskuldbindingum,“ sagði í skýrslu stjórnar í síðasta ársreikningi.
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, skipaði í sumar þriggja manna starfshóp um málefni RÚV. Hópnum er ætlað að skoða möguleika á að létta lífeyrisskuldbindingum RÚV við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR) og hins vegar að skoða mögulegar leiðir til að breyta eðli og umfangi auglýsingamarkaði .
Hópinn skipa Karl Garðarsson (formaður), Steindór Dan Jensen fulltrúi menningar- og viðskiptaráðuneytis og Óttar Guðjónsson fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytis. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn ljúki störfum eigi síðar en 15. nóvember næstkomandi.
RÚV Sala hagnast um 111 milljónir
RÚV Sala, dótturfélag RÚV sem heldur utan um tekjuöflun ríkisfjölmiðilsins, velti 1.514 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins, þar af námu auglýsingatekjur 1.253 milljónum. Tekjur dótturfélagsins jukust um 14% frá sama tímabili í fyrra.
RÚV Sala hagnaðist um 111 milljónir á fyrri árshelmingi samanborið við 81 milljóna á sama tíma í fyrra.